Alþingi
strákur
13
Hvað þarf maður að vera gamall til þess að geta farið á Alþingi?
Komdu sæll
Það er gott að þú hafir áhuga á störfum Alþingis. Maður þarf að hafa kosningarétt til að mega bjóða sig fram til Alþingis, þ.e. vera kjörgengur. Maður þarf sem sagt að vera orðinn 18 ára til að mega starfa á Alþingi auk þess sem gerð er krafa um óflekkað mannorð. Þetta stendur í stjórnarskránni, n.tt. 33. og 34. gr.
33. gr. Kosningarrétt við kosningar til Alþingis hafa allir sem eru 18 ára eða eldri þegar kosning fer fram og hafa íslenskan ríkisborgararétt. Lögheimili á Íslandi, þegar kosning fer fram, er einnig skilyrði kosningarréttar, nema undantekningar frá þeirri reglu verði ákveðnar í lögum um kosningar til Alþingis.
Nánari reglur um alþingiskosningar skulu settar í kosningalögum.34. gr. Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá ríkisborgari sem kosningarrétt á til þeirra og hefur óflekkað mannorð.
Hæstaréttardómarar eru þó ekki kjörgengir.
Þeir sem hafa áhuga á því að starfa að samfélagslegum málum fyrir 18 ára aldur geta farið ýmsar leiðir, t.d. með því að taka þátt í störfum nemendafélaga í skólanum, ungmennaráða í sveitarfélögunum og alls konar félagsstörfum. Sjá nánar hér.
Umboðsmaður barna er með ráðgjafarhóp ungmenna á aldrinum 13-18 ára. Ef þú vilt taka þátt í honum skaltu endilega láta okkur vita. Sjá nánar um hópinn hér.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna