English Danish Russian Thai Polish

Ráðgjafarhópur

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna - Hvað er það?

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna er ráðgefandi aðili fyrir umboðsmann barna um þau málefni sem snúa að börnum og ungmennum í íslensku samfélagi.

Hópurinn getur unnið að ýmsum verkefnum og/eða að málefnum sem hópurinn telur að umboðsmaður barna þyrfti að huga að, sjálfstætt eða í samstarfi við önnur ungmennaráð.

Tilgangur og markmið ráðgjafarhóps umboðsmanns barna

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna er vettvangur þar sem ungt fólk kemur saman til þess að koma skoðunum sínum á framfæri og fær tækifæri til þess að hafa áhrif á málefni sem skipta þau máli í samfélaginu. Eins er ráðgjafarhópurinn kjörinn vettvangur fyrir ungt fólk til þess að hafa áhrif og koma áleiðis ábendingum um lög og reglur sem snúa að þeim.

Í hópnum eru unglingar á aldrinum 13 til 18 ára sem eru umboðsmanni barna innan handar með ráðgjöf um málefni barna og ungmenna og réttinda og hagsmunamál þeirra.

Markmið fundanna með ráðgjafarhópnum er að ræða ýmis mál sem varða börn og ungmenni. Einnig eru ræddar hvaða leiðir eru færar hverju sinni, til þess að hafa áhrif á þau málefni sem snúa að þeim og bæta samfélagið fyrir börn á Íslandi. Ráðgjafar skipuleggja sjálfir vinnu sína á milli funda á lokaðri Facebook síðu hópsins og skipta á milli sín þeirri vinnu sem fer fram á fundum.  

Hlutverk fulltrúa ráðgjafahóps er að:

  • vera ráðgefandi fyrir umboðsmanna barna um málefni og gefa álit á málum sem varða réttindi og hagsmuni barna og ungmenna.
  • vera málsvari barna og ungmenna á Íslandi.
  • vera fulltrúi og málsvari umboðsmanns barna í sínu nærumhverfi og virkja um leið jafnaldra sína og nánasta umhverfi til þátttöku í samfélaginu og stuðla að vitundarvakningu  barna og ungmenna  um réttindi sín.
  • vera starfsmönnum umboðmanns barna innan handar í einstökum verkefnum ef tími og aðstæður ráðgjafa leyfa.
  • vinna að verkefnum sem vekja athygli á réttinum og hagsmunum barna.
  • sitja fundi með ráðamönnum og þingnefndum.

Verkefni sem ráðgjafarhópurinn hefur starfað að

Fulltrúar úr ráðgjafarhópnum hafa setið í nefndum á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, haldið erindi á ráðstefnum, skrifað greinar í blöð, fundað með ráðherrum og forseta Íslands. Hópurinn hefur staðið fyrir kynningum á Barnasáttmálanum í fjölmiðlum, í verslunarmiðstöðvum og er núna að vinna að kvikmynd sem fjallar um Barnasáttmálann.

Viltu vera með  í ráðgjafarhópnum?

Áhugasamir um störf ráðgjafarhópsins geta sent tölvupóst í gegnum heimasíðu umboðsmanns barna, facebooksíðu ráðgjafarhópsins eða umboðsmanns barna. Einnig er hægt senda póst á ub@barn.is eða hringja í síma 8005999 (gjaldfrjálst númer). Gott er að það komi fram nafn, aldur, skóli/sveitarfélag/hverfi og af hverju viðkomandi vill starfa í ráðgjafarhópi umboðsmanns barna.

Í ráðgjafarhópnum starfa um 12 manns hverju sinni.

Aldur fulltrúa við inngöngu í ráðgjafarhópinn skal liggja á bilinu 13 ára til 17 ára, en leitast verður við að allir áhugasamir um starfsemi ráðgjafarhópsins fái tækifæri til að taka þátt í starfi þess með einhverjum hætti. Ráðgjafarhópurinn getur gert tillögur að nýjum fulltrúum í ráðið og kemur þeim tillögum áleiðis til starfsmanns umboðsmanns barna.

Hópurinn fundar einu sinni í mánuði á skrifstofu umboðsmanns barna í Kringlunni 1, 5. hæð. 

Auglýsing ráðgjafarhópsins

Hér er hægt að ná í auglýsingu um ráðgjafarhópinn sem hægt er að hengja upp í skólum, félagsmiðstöðvum og víðar.

Handbók

Hægt er að nálgast handbók ráðgjafarhópsins hér. 

Myndir úr starfi ráðgjafarhópsins