Líður hræðilega og finnst eins allir hati mig
stelpa
13
Mér líður alveg hræðilega. Mér finnst eins og ég sé bara fyrir öllum og allir hati mig. Ég á enga vini í skólanum, er lögð í einelti og líður alveg hræðilega. Hjálp!
Komdu sæl.
Það er mjög leiðinlegt að heyra hvað þér líður illa en gott hjá þér að leita hjálpar. Umboðsmanni barna finnst mikilvægt að öllum börnum líði vel og því mikilvægt að ræða við einhvern sem fyrst til þess að þér líði betur.
Foreldrar þínir bera ábyrgð á líðan þinni og vernd og því mikilvægt að leita fyrst til þeirra ef þú getur og biðja þau um hjálp og segja hvernig þér líður. Hugsanlega gera þau sér ekki grein fyrir því.
Ef þú vilt ekki eða treystir þér ekki til að tala við foreldra þína gætir þú reynt að tala við einhvern annan fullorðinn sem þú treystir vel, t.d. systkini, ömmu og afa eða einhvern annan nákominn. Ef enginn er til staðar getur þú haft samband við barnaverndina í þínu sveitarfélagi. Hér sérð þú lista yfir barnaverndarnefndir eftir sveitarfélögum. Ef þú þarft aðstoð við það getur þú haft samband aftur.
Þú gætir einnig rætt við einhvern í skólanum í haust, s.s. umsjónarkennara, námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðing eða annan sem þú treystir. Það er mikilvægt að reyna að tala við einhvern sem fyrst til þess að þér fari að líða betur. Það er líka mikilvægt að foreldrar þínir viti af eineltinu til þess að hægt sé að gera eitthvað í því sem fyrst. Foreldrar þínir geta þá reynt að aðstoða þig eða reynt að fá utanaðkomandi aðstoð ef þú þarft á því að halda. Einelti á aldrei að líðast og því mikilvægt að bregðast við sem fyrst. Skólinn hefur líka ákveðnum skyldum að gegna í þessu sambandi.
Þú talar um að þú eigir enga vini í skólanum en í því sambandi vill umboðsmaður benda þér á að það getur verið gott að kynnast nýju fólki og vonandi nýjum vinum á öðrum vettvangi en í skólanum. Þú getur athugað hvað er í gangi í þínu bæjarfélagi, t.d. hvort það eru einhverjar íþróttir, er félagsmiðstöðin með eitthvað áhugavert starf eða er eitthvað ungmennastarf hjá Rauða krossinum, skátunum eða kirkjunni. Svo eru líka stundum einhver námskeið sem þú gætir farið á og kynnst nýju fólki.
Að lokum vill umboðsmaður barna benda þér á Hjálparsíma Rauða krossins en númerið þar er 1717 sem þú skalt endilega nýta þér. Þangað getur þú hringt ókeypis þegar þér líður illa, alveg sama hvað klukkan er og rætt þín mál við hlutlausan aðila. Hér getur þú lesið meira um Hjálparsímann.
Að sjálfsögðu getur þú líka alltaf skrifað, komið eða hringt ókeypis til umboðsmanns barna í síma 800 5999.
Bestu kveðjur frá umboðsmanni barna