Ekki komin með nein brjóst.
stelpa
13 ára
Hvernig veit maður að maður sé seinþroska. Ég er 13 ára og eg er ekki komin með brjóst né neitt.
Komdu sæl.
Þú virðist hafa nokkrar áhyggjur af því að þú sért ekki komin með brjóst og er að velta fyrir þér hvort þú sért seinþroska. Það er mjög misjafnt hvenær brjóst fara að stækka og líka hvenær þau hætta að stækka. Það er líka mismunandi hvenær stelpur verða kynþroska, sumar verða kynþroska snemma en en aðrar seinna, það er alveg eðlilegt. Það er algjör óþarfi að hafa áhyggjur af því núna því það getur margt gerst á næstu árum og jafnvel mánuðum.
Það er lítið hægt að gera til að hraða kynþroskanum eða breyta líkamsbyggingunni. Svo skiptir holdafar líka máli. Ef þú ert grönn er alveg eðlilegt að þú hafir lítil brjóst. Því er best að hugsa vel um sig og reyna að vera ánægður með líkama sinn eins og hann er.
Umboðsmaður barna vill benda þér á nokkrar gagnlegar síður:
- Á vefsíðunni heilsuvera.is er heilmikill fróðleikur um allt sem viðkemur líkamlegu og andlegu heilbrigði. Þar er sérkafli um kynheilbrigði og þar undir er kafli um kynþroskann. Þar má lesa ýmislegt um kynþroska hjá stelpum. Þar er einnig hægt að eiga netspjall við hjúkrunarfræðing.
- Á vefsíðu Áttavitans er bæði hægt að senda inn fyrirspurnir um allt sem helst brennir á ungu fólki og lesa svör við spurningum sem þar hafa borist.
Svo getur þú að sjálfsögðu talað um þetta við foreldra þína, aðra fullorðna sem þú treystir, hjúkrunarfræðinginn í skólanum eða á heilsugæslunni.