Sími í skólum - mega kennarar setja reglur um að taka megi símann af nemendum?
Vil ekki segja
14
Ég sýndi kennaranum mínum svarið ykkar um hvort kennarar megi taka símann af nemendum. Hann sagði að skólinn mætti setja reglur um að kennarar mættu taka símann. Er það satt?
Hæ hæ
Í stuttu máli má skólinn setja reglur um símanotkun sem nemendur eiga að fara eftir en það má ekki taka síma af barni með valdi, nema það sé nauðsynlegt til að vernda aðra.
Það er lykilatriði að þær reglur sem gilda í skólanum séu skýrar og kynntar nemendum þannig að nemendur geri sér grein fyrir því hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér ef skólareglurnar eru brotnar. Einnig verða skólareglurnar að vera aðgengilegar nemendum, t.d. með því að hengja þær upp innan skólans, hafa þær sýnilegar á heimasíðu skólans eða á innra neti nemenda.
Nemendum í grunnskólum ber að fylgja skólareglum og fyrirmælum kennara og annars starfsfólks, eins og meðal annars kemur fram í 14. gr. laga um grunnskóla og 4. gr. reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins. Ef nemandi virðir ekki skólareglur eða fer ekki eftir fyrirmælum starfsmanns skólans þá er starfsmanninum heimilt bregðast við í samræmi við skólareglurnar. Skólareglurnar verða þó alltaf að vera í samræmi við réttindi barna.
Æskilegt er að skólar taki afstöðu til þess í skólareglum hvernig nemendur eiga að umgangast síma á skólatíma. Best væri ef skólinn mundi setja reglur í samráði við nemendur sem snúa að því hvernig notkun síma skuli háttað á skólatíma til þess að takmarka truflandi áhrif þeirra sem nemendur væru sáttir við að fylgja. Hins vegar er vert að hafa í huga að börn njóta eignaréttar eins og aðrir og nær hann yfir símtæki sem þau eiga og þarf að taka tillit til þess. Þá verður alltaf að gæta meðalhófs þegar nemendum er refsað fyrir að brjóta af sér í skólanum. Það þýðir að það á ekki að grípa strax til þess úrræðis sem hefur mestar afleiðingar fyrir nemandann.
Ef það stendur til dæmis í skólareglunum að notkun síma er takmörkuð eða bönnuð á meðan kennslustund stendur og því lýst hverjar afleiðingarnar geta verið ef það er brotið þá er kennara heimilt að bregðast við í samræmi við það. Eins og áður segir verður kennarinn þó alltaf að gæta meðalhófs. Eðlilegt er að fyrsta skrefið væri að kennarinn mundi biðja nemandann um að setja símann niður og gefa honum viðvörun. Ef nemandinn tekur aftur upp símann eftir að hafa fengið viðvörun þá má kennarinn til dæmis bregðast með því að biðja nemandann um að afhenda sér símann þar sem hann er að valda truflun. Kennarinn hefur hins vegar ekki heimild til að taka símann af nemanda gegn vilja nemandans eða með valdi, enda önnur og vægari úrræði sem koma til greina. Ef nemandi fer ekki eftir fyrirmælum kennarans gæti hann til dæmis vísað nemanda úr kennslustund eða sent hann til skólastjóra.
Þegar um er að ræða hegðun sem getur valdið öðrum skaða eða eignatjóni getur kennari eða starfsfólk skólans þó brugðist við á grundvelli neyðarréttar, til dæmis með því að taka síma eða aðrar eignir af nemendum. Dæmi um slíkt væri ef nemandi væri að nota síma í kennslustund til þess að taka upp myndband eða myndir af einhverjum til að gera grín af eða niðurlægja á einhvern hátt eða sýna myndir eða annað efni í símanum sem getur talist meiðandi.
Ef kennari eða annar starfsmaður skóla telur nauðsynlegt að taka síma af nemanda á grundvelli neyðarréttar þá er nauðsynlegt að símans sé vel gætt og hann geymdur á stað þar sem aðrir nemendur geta ekki nálgast hann til að tryggja friðhelgi nemandans sem á símann. Í þeim tilvikum ber skólanum líka að skila eignunum til baka eins fljótt og hægt er. Í því samhengi er rétt að taka fram að umboðsmaður barna telur ekki rétt að gera kröfu um að foreldrar sæki eignir nemanda, enda eiga börn sjálfstæðan eignarétt. Ef brot nemanda er alvarlegt eða ítrekað getur skóli hins vegar ákveðið að kalla foreldra á fund til þess að ræða hegðun nemandans og hafa samráð við þá um hvernig best er að stuðla að bættri hegðun.
Kveðja frá umboðsmanni barna