Um sætaskipan í kennslustofu
stelpa
14
Ég er í Hólabrekkuskóla.. og var að velta fyrir mér hvort það væri ekki hægt að setja reglu á það að maður mætti ráða hvar maður situr í tíma! því að í unglingdeildinni þarf maður að draga númer:(! Þetta er ömurlegt! maður kvíðir alltaf fyrir að draga númer.. og lenda í einhverju ömurlegi sæti! og þegar maður segir kennurum að maður vilji ekki sitja svona segja þeir bara að þetta er til að kynnast einvherjum öðrum! Það er rugl.. þetta er pynting! Plís getiði eitthvað gert.. bæ
Komdu sæl
Þú segist vilja ráða hvar þú situr í kennslustofunni og biður um aðstoð umboðsmanns til að setja þess háttar fyrirkomulag á. Umboðsmaður barna getur ekki haft áhrif á þetta. Skólastjórnendur ráða þessu. En börn og unglingar hafa samt alltaf rétt á því að segja hvað þeim finnst og hinir fullorðnu eiga að hlusta á skoðanir þeirra og taka réttmætt tillit til þeirra í samræmi við aldur og þroska.
Þó að maður sé ekki alltaf ánægður með sætið sem maður lendir í, og vildi eflaust miklu heldur fá að sitja hjá einhverjum sem maður þekkir vel og líkar vel við, er mikilvægt að hafa í huga hvað býr að baki svona fyrirkomulagi. Það vita það allir að vinir og vinkonur hafa oft mikið að segja hvort öðru. En til að kennslan verði markviss og nemendur geti unnið og lært er nauðsynlegt að í skólastofunni sé góður vinnufriður. Það að sitja hjá einhverjum sem maður þekkir lítið gefur manni líka tækifæri til að kynnast nýjum einstaklingum, sem maður annars myndi e.t.v. ekki gera.
Í flestum skólum er starfandi nemendaráð en þau eru mikilvægur vettvangur nemenda fyrir félags-, velferðar- og hagsmunamál þeirra. Ef þú vilt kanna hvaða leiðir eru færar innan skólans til að hafa áhrif gætir þú lagt málið fyrir nemendaráðið í þínum skóla til að athuga hvort nemendur annarra bekkja hafi sömu skoðun. Ef að nemendaráðið tekur þetta mál fyrir er þó alls ekki víst að sætafyrirkomulaginu fáist breytt, þar sem því hefur eflaust verið komið á til að þjóna hagsmunum ykkar betur.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna