Þarf að vera jafn lengi hjá foreldrum ef þau eru skilin?
Strákur
10
Eru lög um hvort maður sé jafn lengi hjá hverjum foreldra ef þau eru skilin?
Sæll.
Takk fyrir þetta erindi. Við höfum svarað svipaðri spurningu áður um það hvernær börn ráða umgengi og hér er hægt að sjá það . Þú getur einnig lesið það hér fyrir neðan.
Í barnalögum nr. 76/2003 er fjallað um að barn eigi rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá. Í lögunum er þó ekki tekið fram hversu mikil sú umgengni skuli vera. Inntak umgengni ræðst því fyrst og fremst af samkomulagi milli foreldra, að teknu tilliti til vilja barns.
Börn eiga að njóta almennt stigvaxandi réttinda til að hafa áhrif á eigin málefni með auknum aldri og þroska. Í barnalögum er ekki beinlínis tekið fram frá hvaða aldri börn geta ráðið umgengni sjálf en foreldrum ber skylda til að hafa samráð við barn þegar ákvörðun er tekin um umgengni og taka tillit til skoðana barns í samræmi við aldur og þroska, sbr. meðal annars 1. gr. og 28. gr. barnalaga.
Báðum foreldrum ber því að hlusta á það sem barnið hefur fram að færa og taka réttmætt tillit til skoðana þess varðandi umgengni. Eftir því sem börn eldast og þroskast eiga þau að hafa meiri áhrif á umgengni. Þegar börn eru komin á unglingsaldur er eðlilegt að þau ráði mestu um það hvernig umgengni er háttað, enda er erfitt að þvinga unglinga í umgengni gegn vilja þeirra.
Í þeim tilvikum sem foreldrar geta ekki komið sér saman um umgengni er hægt að leita til sýslumanns og óska eftir úrskurði. Áður en sýslumaður úrskurðar um umgengni er foreldrum skylt að leita sátta í sáttameðferð hjá sýslumanni. Ef ekki tekst að ná sátt tekur sýslumaður ákvörðun um hvernig umgengni skuli háttað út frá því sem hann telur barninu fyrir bestu hverju sinni. Eins og á við um allar ákvarðanir sem varða börn ber sýslumanni að sjálfsögðu að líta til vilja barnsins áður en hann tekur slíka ákvörðun, sbr. meðal annars 1. gr. og 43. gr. barnalaga. Afstaða barns fær aukið vægi með aldri þess og þroska og hefur vilji stálpaðra barna því grundvallarþýðingu þegar tekin er afstaða til umgengnisréttar.
* Uppfært: Umboðsmaður barna vill vekja athygli á því að nú geta börn geta beðið sýslumann um að boða foreldra þess til fundar til að ræða óskir barnsins um breytingar á fyrirkomulagi forsjár, lögheimilis, búsetu eða umgengni.
Áður en foreldrar eru boðaðir til samtals á að gefa barninu kost á viðtali með fagaðila sem aðstoðar það við að koma eigin sjónarmiðum á framfæri við foreldra.
Barn getur haft samband við sýslumann með því að hringja eða senda tölvupóst eða koma við á skrifstofu sýslumanns og biðja um samtal.
Hér má finna nánari upplýsingar um þetta:: https://island.is/rettur-barns-til-thess-ad-leita-til-syslumanns