Pabbi pirraður eftir skilnað
Strákur
12
hæ er það alltílagi ef að pabbi minn sé miklu meiri pirraður og reiður síðan skilnaðin við stjúpmömmu minni.ég hef orðið mjög hræddur við hann þegar hann skammar mig hann er mjög ógnandi og þegar hann er búinn að skamma mig verð ég bara orðlaus og þori ekki að tala alveg strax við hann
Hæ.
Takk fyrir póstinn það er leitt að heyra að pabbi þinn er orðinn meira pirraður og reiður eftir skilnað við stjúpmömmu þína. Skilnaðir geta oft verið mjög erfiðir fyrir alla aðila og ef til vill líður pabba þínum illa vegna þess.
En í stuttu máli þá er svarið nei. Það er ekki í lagi að pabbi þinn sé meira pirraður eða reiður við þig. Foreldrar hafa ákveðnar skyldur gagnvart börnunum sínum. Þeir bera ábyrgð á uppeldi barna sinna og eiga að sýna barni sínu umhyggju og virðingu og vernda það fyrir hvers kyns ofbeldi, m.a. andlegu ofbeldi. Það er einnig hlutverk foreldra að styðja við barnið sitt og kenna því góð samskipti. Foreldrar vilja að börnunum sínum líði vel.
Þó það kunni að vera erfitt þá er ef til vill besta leiðin fyrir þig að tala við pabba þinn og segja hvernig þér líður. Ef þú treystir þér ekki til að tala við hann mælum við með að þú talir við einhvern annan fullorðin sem þú treystir. Það getur annaðhvort verið einhver úr fjölskyldunni eða í skólanum, t.d. námsráðgjafi, skólahjúkrunarfræðingur eða umsjónarkennari. Þá eru mörg sveitarfélög einnig með fjölskylduráðgjöf sem hægt er að leita til og ræða ýmis vandamál sem tengjast fjölskyldunni. Þú ættir að geta sjálfur fengið upplýsingar um fjölskylduráðgjöfina hjá þínu sveitarfélagi eða fengið einhvern fullorðinn sem þú treystir til að hjálpa þér við það.
Vonandi svarar þetta þér einhverju en þér er alltaf velkomið að hafa aftur samband í gegnum tölvupóst eða með því að hringja í síma 800-5999 (gjaldfrjálst númer fyrir börn).
Kær kveðja frá umboðsmanni barna