Má ég flytja út og búa ein?
Stelpa
16
Má ég flytja út og búa ein? Er 16 ára og líður illa heima.
Ofangreint erindi barst til okkar en ekkert netfang var gefið upp þannig að ekki er hægt að gefa persónulegt svar. Erindið er hér stytt töluvert og svarið við því er almenns eðlis. Ef viðkomandi vill fá frekari ráðgjöf eða upplýsingar þá má senda okkur póst á ub@barn.is .
Þar sem þú verður ekki lögráða fyrr en við 18 ára aldur mátt þú í raun ekki flytja að heiman og búa ein, nema forsjáraðilar þínir samþykki það eða aðstæðurnar á heimilinu eru þannig að þær geta talist skaðlegar fyrir þig.
Ef samskipti eru ekki góð á heimilinu gæti verið góð hugmynd að ræða við foreldra þína og kanna hvort hægt sé að fá einhverja aðstoð til þess að bæta samskiptin. Það gæti einnig verið gott að talað við einhvern annan fullorðinn sem þú treystir, t.d. ömmu, afa, frænku eða frænda, og beðið um aðstoð til þess að ræða við foreldra þína. Í sumum sveitarfélögum er boðið ókeypis uppá fjölskylduráðgjöf, það kann að reynast mörgum gagnlegt. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Hægt er að hafa samband við það sveitarfélag sem þú býrð í til að fá upplýsingar um þá þjónustu sem er í boði. Ef þú átt heima í Reykjavík getur þú haft samband við þjónustumiðstöðina í þínu hverfi.
Ef barni líður mjög illa heima hjá sér og vill alls ekki búa þar áfram þá gæti reynst nauðsynlegt að hafa samband við barnavernd en hlutverk hennar er að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra. Til dæmis býður barnavernd upp á ráðgjöf og stuðning til þess að börnum fari að líða vel heima hjá sér en ef hún telur það ekki duga getur verið best fyrir barnið að búa annars staðar en hjá foreldrum sínum. Það gæti verið annað hvort tímabundið eða til lengri tíma og þá er annaðhvort hægt að fara í fóstur hjá ættingjum eða óskyldum fósturforeldrum. Hér er listi yfir allar barnaverndarnefndir eftir sveitarfélögum.
Hægt er að hafa samband sjálf eða rætt málin við einhvern sem þú treystir, t.d. ættingja, kennara eða námsráðgjafa, og beðið viðkomandi um að hafa samband við barnaverndina fyrir þig. Einnig er hægt að hafa samband við okkur aftur, annaðhvort með tölvupósti á ub@barn.is eða með því að hringja í síma 800-5999 (gjaldfrjálst númer).