Mig langar að segja mömmu að ég þoli ekki fósturpabba !
Komdu sæl
Þú segir að þig langi til að segja mömmu þinni að þú þolir ekki stjúpföður þinn en veist ekki hvernig þú átt að bera þig að. Það sem þú þarft að gera er að setjast niður í rólegheitum með mömmu þinni og segja henni hvernig þér líður. Það er alls ekki öruggt að hún geri sér grein fyrir því sem hrjáir þig og með því að ræða málin má oft finna lausn á vandamálum. Ef þér finnst erfitt að tala við hana ein ættir þú að biðja einhvern sem þú treystir (t.d. námsráðgjafann í skólanum þínum) að vera viðstaddan þegar þið ræðið saman.
Hér er slóð að mjög forvitnilegri heimasíðu þar sem fjallað er um stjúpfjölskyldur www.stjuptengsl.is Endilega kíktu á barnasíðuna, þar kemur ýmislegt fróðlegt fram, m.a. eru þar upplýsingar um það hvernig best sé að bera sig að ef manni líkar ekki við stjúpforeldri sitt.
Ef þér líður mjög illa getur þú líka hringt í Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, sem er gjaldfrjáls sími og er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem þurfa aðstoð i ýmsum málum.
Ef þú hefur enn spurningar um þessi mál eftir að hafa lesið svarið þá er þér velkomið að hringja og ræða við einhvern starfsmann umboðsmanns barna. Síminn er 800 5999 og er opinn milli kl. 9 og 15.
Vonandi gengur allt vel hjá þér
Með bestu kveðju
frá umboðsmanni barna