Má kennari segja frá einkunnum?
Einn kennari í skólanum segir stundum einkunnir úr prófum yfir allan bekkinn. Má það? Stundum segir hann ekki einkunnirnar heldur bara "gott hjá þér" við einn en "þú átt að geta miklu betur......" við annan fyrir framan alla!!! Má það? Við erum alveg mörg sem erum orðin mjög pirruð útaf þessu.
Komið þið sæl
Samkvæmt 12. gr. grunnskólalaga ber kennurum og öðru starfsfólki skólans að gæta kurteisi, nærgætni og lipurðar í framkomu sinni gagnvart öllum nemendum. Það má vel vera að kennarinn sé að reyna að hvetja nemendurna á þennan hátt til að gera vel og líklega meinar hann vel. Það getur þó varla talist nærgætið að segja upphátt hvernig nemanda hefur gengið á prófi enda eiga einkunnir að vera trúnaðarmál.
Í 27. gr. grunnskólalaga segir m.a.:
Óheimilt er að veita upplýsingar um vitnisburði einstakra nemenda öðrum en þeim sjálfum og foreldrum þeirra.
Best væri fyrir ykkur að ræða við þennan kennara í góðu og segja honum hvað ykkur finnst um það þegar hann segir þetta. Það er líklegt að hann geri sér ekki grein fyrir því hvaða áhrif þetta hefur á ykkur. Ef ykkur finnst óþægilegt að tala við hann um þetta þá getið þið rætt um þetta við umsjónarkennarann ykkar eða skólastjórann. Þá gæti verið gott að ræða við foreldra ykkar og fá þau til að aðstoða ykkur.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna