Leið og stressuð
Stúlka
Ég er mjög leið og er alltaf stressuð hvað á ég að gera
Það er erfitt að líða illa og vera alltaf stressuð. Það er mikilvægt að hugsa vel um sig, passa að maður fái nægan svefn, borði hollan mat og hreyfi sig. Það er líka mikilvægt að þú talir við einhvern um líðan þínu. Foreldrar þínir bera ábyrgð á líðan þinni og vernd og því mikilvægt að leita fyrst til þeirra ef þú getur og biðja þau um hjálp. Ef þú vilt ekki eða treystir þér ekki til að tala við foreldra þína gætir þú reynt að tala við einhvern annan fullorðinn sem þú treystir vel, t.d. ömmu, afa eða einhvern í skólanum þínum, s.s. umsjónarkennara, námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðing eða annan sem þú treystir. Þá getur þú fengið aðstoð á heilsugæslustöðinni þinni.
Litla Kvíðameðferðarstöðin hjálpar börnum og unglingum sem eru með kvíða eða þunglyndi. Hér getur þú fengið frekari upplýsingar um Litlu Kvíðameðferðarstöðina.
Einnig bendir umboðsmaður þér á hjálparsíma Rauða krossins en númerið þar er 1717 sem þú skalt endilega nýta þér. Þangað getur þú hringt ókeypis þegar þér líður illa, alveg sama hvað klukkan er. Þar getur þú rætt þín mál við hlutlausan aðila.
Til að auðvelda þér að opna á þetta vandamál við foreldra þína gætir þú prentað þetta svar út og sýnt þeim.
Gangi þér vel.