Hvernig get ég látið ættleiða mig?
Stelpa
15
hvernig get ég latið ættleiða mig :)
Komdu sæl
Það fer í raun eftir aðstæðum hvernig ættleiðing fer fram og því ekki auðvelt að svara því hvernig þú getir látið ættleiða þig án þess að vita meira um aðstæður þína. Þú mátt endilega hafa samband aftur með því að senda tölvupóst á ub@barn.is eða hringja í síma 800-5999 (gjaldfrjálst) ef þú vilt fá nákvæmara svar.
Sýslumaður veitir leyfi til ættleiðingar og hægt er að lesa nánar um þær hér á vefsíðu sýslumanns.
Ef þú vilt láta stjúpforeldri ættleiða þig þá er það svokölluð stjúpættleiðing. Til þess að það sé hægt þarf stjúpforeldrið að hafa verið í sambúð eða hjúskap með foreldri þínu í a.m.k. 5 ár. Forsjáraðilar þínir, þú og stjúpforeldri þitt þurfa að samþykkja ættleiðinguna. Ef þú átt foreldri sem fer ekki með forsjá yfir þér þarf líka að leita umsagnar þess áður en ættleiðing getur farið fram.
Ef þú ert í fóstri og vilt að fósturforeldrar þínir ættleiði þig er fyrsta skrefið að ræða við þá og kanna hvort þeir séu tilbúnir til þess. Síðan þarf samþykki þess sem fer með forsjá yfir þér.
Ef þér líður ekki nógu vel heima hjá þér og vilt þess vegna láta ættleiða þig er mikilvægt að þú hafir samband við barnaverndina þar sem þú átt heima, en þú getur lesið meira um barnaverndina hér á vef umboðsmanns barna. Hér líka listi yfir allar barnaverndarnefndir í landinu.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna