Get ég ákveðið að flytja til ömmu og afa?
stelpa
16
Get ég ákveðið að flytja til ömmu og afa? Foreldrar mínir hafa verið skilin í 9 ár og ég alltaf verið hjá pabba, langað til mömmu og það var í vinnslu þar til nokkuð kom upp á. Nýlega hætti það en mamma býr ekki við nógu góður aðstæður til þess að fá mig til hennar. Gæti ég í staðinn fengið að flytja til ömmu og afa og ákveðið það alveg sjálf?
Komdu sæl
Þú getur ekki ákveðið það alveg sjálf að flytja til ömmu þinnar og afa. Þar sem þú ert orðin 16 ára á pabbi þinn þó að hlusta á þig og taka mikið tillit til skoðana þinna.
Auðvitað ákveða foreldrar og börn stundum í sameiningu að það sé best fyrir börnin að búa hjá ömmu og afa. Það er bara hið besta mál ef allir eru sáttir við það og þetta fyrirkomulag gengur upp fyrir alla.
Almennt er samt gengið út frá því að börn búi með foreldrum sínum. Foreldrar bera ábyrgð á velferð barna sinna og eiga samkvæmt lögum að taka ákvörðun um það hvar barn þeirra á heima. Í barnalögum segir að börn eigi rétt á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og foreldrar eiga að hafa samráð við barn sitt um öll mál sem það varðar og taka réttmætt tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur og þroska (1. og 28. gr. barnalaga). Af þessu leiðir að sjónarmið barna eiga að hafa stigvaxandi áhrif og er því eðlilegt að stálpuð börn ráði mestu um það hvar þau búa.
Þar sem þú ert orðin 16 ára átt þú að ráða miklu um það hvar þú átt heima. Það er alltaf best að ræða þetta með foreldrum og meta kosti og galla í samræmi við aðstæður og finna út hvað er þér fyrir bestu.
Í fyrirspurn þinni kemur ekki fram hvers vegna þig langar ekki að búa lengur hjá pabba þínum.
Ef það er út af erfiðum samskiptum er líklega best að þú byrjir á því að tala við pabba þinn og segja honum hvernig þér líður. Kannski er eitthvað sem hann getur gert til þess að þér fari að líða betur á heimilinu. Ef þú treystir þér ekki til þess að tala við hann ein gæti verið góð hugmynd að biðja einhvern fullorðinn sem þú treystir til þess að aðstoða þig, t.d. ömmu þína eða afa. Ef það dugar ekki til getur líka verið gott fyrir ykkur að fara í fjölskylduráðgjöf. Sveitarfélög eiga að bjóða upp á ókeypis fjölskylduráðgjöf, en hér er hægt að finna heimasíður allra sveitarfélaga. Ef þú átt heima á höfuðborgarsvæðinu eða nálægt því má benda á Fjölskyldumiðstöðina.
Ef pabbi þinn kemur illa fram við þig eða þér líður af öðrum ástæðum illa á heimili þínu er mikilvægt fyrir þig að hafa samband við barnaverndina þar sem þú átt heima. Hér er listi yfir allar barnaverndarnefndir á landinu. Barnaverndin á að hjálpa börnum sem líður illa heima hjá sér. Það gæti verið góð hugmynd að ræða fyrst við ömmu þína og afa og biðja þau um að aðstoða þig við að hafa samband við barnaverndina. Ef þú vilt getur þú líka sent okkur nánari upplýsingar og við höfum samband við barnaverndina fyrir þig.
Ef þú vilt ræða málið nánar skaltu endilega hringja í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).
Gangi þér vel!