Finnst leiðinlegt í skólanum
Ef manni finnst rosalega leiðinlegt í skóla, hvað á maður þá að gera?
Hæ hæ,
Takk fyrir að hafa samband við umboðsmann barna. Það er alls ekki gott ef þér finnst mjög leiðinlegt í skólanum. Börn eru í langan tíma á hverjum degi í skólanum og þess vegna er mjög mikilvægt að öllum líði vel þar. Skólinn er líka mikilvægur staður til þess að hitta vini sína og bekkjarfélaga, læra, leika sér og hafa gaman.
Ef þér finnst mjög leiðinlegt í skólanum þá ættir þú að tala við foreldra þína um hvernig þér líður og það væri líka gott fyrir þig að tala við umsjónarkennara þinn eða annan fullorðinn sem þú treystir. Það getur oft verið mjög gott að tala um það sem manni finnst leiðinlegt og fá aðstoð. Foreldrar þínir og kennarar eiga að sjá til þess að þér líði vel í skólanum og þau vilja örugglega hjálpa þér að laga vandamálið.
Á Íslandi er skólaskylda sem þýðir að öll börn sem eru í 1-10 bekk verða að mæta í skóla. Það er þess vegna mjög mikilvægt að foreldrar þínir og kennari finni með þér leiðir til þess að þér geti fundist skemmtilegt að mæta í skólann.
Gangi þér vel og góðar kveðjur frá umboðsmanni barna,