Einkalíf barna
Mega kennarar spyrja börn persónulegra spurninga eða skipta sér af líðan þeirra?
Hæ hæ og takk fyrir póstinn.
Einkalíf barna er mikilvægt og þú átt rétt á því að ákveða sjálf hvað aðrir vita um þig. Hins vegar er það einnig skylda umsjónarkennara að fylgjast með líðan og almennri velferð nemenda og ráðleggja þeim. Kennarar verða þó á sama tíma að bera virðingu fyrir skoðunum barna og virða það t.d. ef þau vilja ekki svara persónulegum spurningum.
Svarið er því já, umsjónarkennari þinn má spyrja þig svona persónulegra spurninga ef honum grunar t.d. að þér líði ekki vel af einhverjum ástæðum. Þá er það skylda kennarans og skólans að bregðast við og veita þér stuðning, en þau verða ávallt að gæta trúnaðar. Ef þér fannst samtalið óþægilegt væri gott fyrir þig að ræða það við einhvern sem þú treystir og leita ráða, t.d. hjá foreldrum þínum eða öðrum ættingjum, námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðing. Það væri þá kannski hægt að ræða við kennarann um hvaða áhrif samtalið hafði á þig en það er mjög mikilvægt að börn og umsjónarkennarar eigi í góðum samskiptum.
Gangi þér vel og bestu kveðjur frá umboðsmanni barna,