Áhyggjur af vinkonu sem er með eldri strákum
stelpa
15
Vinkona mín er byruð að sofa hjá miklu eldri strákum sem hún kynntist á netinu. Hún er bara 15 ára (strákarnir eru svona í kringum 20). En hvað á ég að gera? Ég hef áhyggjur að henni. Hún mætir bara 2 daga í skólann eða bara ekkert. Hvað á ég að gera?
Komdu sæl
Hún vinkona þín er nú heppin að eiga þig að og það að þú leitir ráða um þetta mál sýnir að þú berð hag hennar fyrir brjósti. Þú hefur vonandi rætt þetta við vinkonu þína.
Fyrst vill umboðsmaður segja þér að það eru fyrst og síðast foreldrar hennar sem bera ábyrgð á velferð hennar. Þú ættir því ekki að burðast með þessar áhyggjur ein heldur tala við einhvern fullorðinn um þetta sem þú treystir, t.d. námsráðgjafann í skólanum eða umsjónarkennarann. Ef mætingin í skólann er orðin slæm hjá henni þá ætti skólinn að hafa rætt málið við foreldra hennar enda er það skylda þeirra að sjá til þess að dóttir þeirra mæti í skólann. Ef foreldrar sinna ekki þessari skyldu þá á skólinn að tilkynna barnaverndarnefnd um það.
Í lögum segir að foreldrar hafi rétt til að ráða persónulegum högum barna sinna til 18 ára aldurs en þó er talið að of mikil íhlutun í málefni þeirra geti verið andstæð grundvallarreglum um sjálfsákvörðunarrétt einstaklings og friðhelgi einkalífs barnanna. Í friðhelgi einkalífs felst fyrst og fremst réttur manns til að ráða yfir lífi sínu og líkama og njóta friðar um lífshætti sína og einkahagi. Línan á milli þess hvað fellur undir skyldu foreldra til að vernda börn sín og hvað fellur undir of mikla afskiptasemi foreldra getur stundum verið óljós.
Í sambandi við kynlíf unglinga er mikilvægt að hafa í huga að hver og einn ræður yfir líkama sínum sjálfur og enginn annar hefur rétt til að ákveða hvað gert er við líkama þeirra. Vonandi er vinkonu þinni ljóst að:
-
Kynlíf á að snúast um vellíðan, ánægju, virðingu, traust og ábyrgð.
-
Mikilvægt er að unglingar tileinki sér virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Einstaklingur sem þekkir verðleika sína og býr yfir nægilegri sjálfsvirðingu til að setja mörk og sætta sig ekki við hvað sem er, á auðveldara með að sneiða hjá óæskilegri kynlífsreynslu.
-
Mikilvægt er að sýna ábyrgð, lesa sér til um getnaðarvarnir, kynsjúkdóma og veirusmit og hafa í huga að kynlíf með öðrum getur bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á líkamlega og andlega líðan.
-
Líkurnar á alvarlegum afleiðingum kynlífs, eins og kynsjúkdómum og þungunum, aukast eftir því sem unglingar byrja fyrr að stunda kynlíf og bólfélögum fjölgar.
-
Flestir myndu álíta að talsverður þroska- og reynslumunur væri á 15 ára ungling og 20 ára manni. Því er alltaf spurning hvort 2. málsgrein 202. greinar almennra hegningarlaga gæti átt við aðstæður vinkonu þinnar. Markmið laganna er ekki að hafa afskipti af einkalífi fólks svo framarlega að ekki sé um að ræða þvingun, nauðung eða misnotkun á trausti eða sakleysi þeirra sem ekki geta varið sig. Lögin eru sett til að vernda börn og unglinga gegn misnotkun þeirra sem vilja notfæra sér reynsluleysi þeirra og ungan aldur.
Í lokin vill umboðsmaður benda þér og vinkonu þinni á frábæra vefsíðu um kynlíf, getnaðarvarnir, kynsjúkdóma o.fl: www.astradur.is.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna