Yfirráð yfir persónulegum eigum
strákur
14
Mega foreldrar mínir taka af mér persónulegar eigur eins og síma, tölvu og föt og leyna fyrir mér hvar þeir eru geymdir?
Komdu sæll
Samkvæmt almennum reglum eignarréttar hefur þú yfirráðarétt yfir þeim eignum sem þú kaupir þér fyrir þinn pening eða þú færð að gjöf. En þar sem þú ert barn og velferð þín á ábyrgð foreldra þinna er almennt viðurkennt að foreldrar þínir hafi í undantekningartilfellum rétt til að takmarka yfirráð þín yfir eignum þínum ef þeir telja sig vera að vernda þig með því.
Slíkt væri t.d. réttlætanlegt þegar barn hefur notað tölvuna eða símann í ólöglegum eða óæskilegum tilgangi eða ræður hreinlega ekki við notkunina. Einnig mætti hugsa sér að það væri skiljanlegt að foreldrar myndu ekki leyfa barni sínu að klæðast fötum með mjög meiðandi athugasemdum, myndum eða táknum. Foreldrar bera þá skyldu að vernda börn sín og ala þau upp í takt við almennt siðgæði. Þess vegna er í algerum undantekningartilvikum talið í lagi að þeir takmarki eignarétt barna sinna.
Kveðja frá umboðsmanni barna