Vinir í dópi
strákur
15
Hallo... Skommm... vinir mínir eru byrjaðir að dópa og prófa allskonar efni. Svo þekki ég gaura sem eru handrukkarar.... Vinír mínir eru stundum að biðja mig að gera hluti fyrir þá sem ég vil ekki gera en það er erfitt að segja bara nei útaf því þá verða þeir geðveikt pirraðir og segja að ég þori engu. Hvað get ég gert?????
Komdu sæll
Gott hjá þér að skrifa. Það er mikilvægt að þú hafir í huga að það ert þú sjálfur sem tekur ákvarðanir fyrir sjálfan þig, ekki vinir þínir. Þú verður að fylgja sannfæringu þinni og standa á þínu. Þú ert reyndar ennþá á ábyrgð foreldra þinna og þess vegna væri gott að fá stuðning þeirra við að kljást við þetta.
Vinir þínir þurfa á aðstoð að halda. Það stendur í barnaverndarlögum að hver sá sem veit að barn er hættulegt sjálfu sér og umhverfinu eigi að láta barnaverndina vita. Auðveldast er að hringja (án þess að segja til nafns ef þú vilt) í 112 og bera upp erindið við starfsmann Neyðarlínunnar. Starfsmaðurinn kemur því svo til skila til réttra aðila í sveitarfélaginu sem þú býrð í.
Sakhæfisaldur er 15 ár en það þýðir að frá þeim aldri eru börn talin bera ábyrgð á gerðum sínum og geta þurft að taka út refsingu ef þau brjóta af sér. Þegar barn verður sakhæft er byrjað að skrá á sakavottorð þess flest lögbrot sem það fremur, t.d. fíkniefnabrot, skemmdarverk, ofbeldisbrot, brot á áfengislögum og fölsun skilríkja. Það getur verið slæmt að vera ekki með hreint sakavottorð og afleiðingarnar geta verið alvarlegar og haft neikvæð áhrif á líf einstaklingsins seinna meir, t.d. þegar sótt er um vinnu eða inngöngu í skóla.
Þú getur komið skilaboðum til lögreglunnar um fíkniefnaneyslu og -sölu vina þinna með því að hringja í fíkniefnasímann 800-5005. Þú þarft ekki að segja til nafns eða gefa upp upplýsingar um sjálfa þig. Þegar grunur er um að barn hafi framið refsiverðan verknað er alltaf haft samband við barnaverndina.
Aðstæður þínar eru ekki auðveldar og þess vegna er mikilvægt að þú standir ekki einn í þessu. Það er mikilvægt fyrir þig að ræða málin við einhvern og þiggja ráðleggingar og aðstoð. Ef þú getur treyst foreldrum þínum eða einhverjum fullorðnum í kring um þig fyrir þessu þá væri það eflaust mikil hjálp í því. Svo vill umboðsmaður benda þér á að þú getur rætt þetta við námsráðgjafann í skólanum eða umsjónarkennarann þinn. Þessir aðilar eru bundnir trúnaði en þeim ber þó skylda til að tilkynna um fíkniefnanotkun barna til barnaverndarinnar.
Svo vill umboðsmaður mæla með ráðgjöfinni hjá www.totalradgjof.is. Þar svarar fagfólk alls kyns erindum frá unglingum. Þar er líka hægt að fá viðtal og ráðgjöf á staðnum (í Hinu húsinu í Reykjavík).
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna