Vina- og fjölskylduvandamál o.fl.
stelpa
14
Hæhæ. Ég er með nokkur vandamál sem ég vil endilega fá hjálp við. Hér koma þau:
1. Ég var að skipta um skóla nýlega og fara í nýjan, en núna er eins og allir séu óvinir mínir í gamla skólanum og sumir krakkarnir eru að ljúga einhverju upp á mig sem er bara alls ekkert satt, en það sem er að því, að það trúa því flestir, þótt að það sé algjört bull sko og sé rosalega óraunverulegt. Ég meina, ég hef ekki hugmynd um hvað ég hef gert þeim. Ég held meira að segja að ég hafi ekki gert þeim neitt :s
2. Það er líka eitt fjölskyldu vandamál. Ég var að flytja inn með öðru foreldri mínu og stuttu eftir að við fluttum inn þá hafa brotist út rifrildi, fyrst á milli mín og annars foreldri míns og svo núna á milli bróður míns sem er yfir 18 ára og foreldrisins sem ég flutti inn með. Eins og t.d. í gærkvöldi þegar fólk var t.d. farið að sofa í blokkinni minni þá var einhvað gríðarlegt riflridli á milli þeirra 2ja og svo í dag þá sá ég einhvern lögreglumann eiginlega fyrir framan íbúðina okkar en hann var samt ekkert að kíkja inn eða gera sig tilbúnan að dingla hjá okkur, bara eins og hann væri að tala við nágranna okkar... mig grunar það að grannar okkar hafi verið að kvarta eða einhvað :s
3. Annað svona family problem... foreldrið sem ég flutti inn með er alltaf að tala illa um hitt foreldri mitt. Ég veit alveg að hitt foreldrið mitt getur verið ósanngjarnt og svona, en mér finnst hrikalega leiðinlegt þegar foreldrið sem ég bý hjá talar illa um það. Ég hef beðið það um að hætta en það bara hættir ekki ! Ég meina, ég þekki fullt að fólki sem á skilna foreldra en þeir tala ekkert illa um hvort annað, þvert á móti!
4. Og svo síðasta spurningin, ég svitna alveg hræðilega mikið, segjum t.d. að ég sé nýkomin í hreinan bol, svo eftir fáar mín. er strax komin svitablettur ;s Rosalega pirrandi einhvað :S:S
Uuu, já. Þetta eru allar sp. sem ég vonast eftir svari við. Takk fyrir mig ;)
Komdu sæl
1. Vinavandamál
Varðandi vandamálið með vinina úr gamla skólanum þá gæti verið gagnlegt að tala við einhvern sem þú þekkir vel úr gamla hópnum til að reyna að fá það á hreint hvað er í gangi. Kannski er kominn upp einhver misskilningur sem þarf bara að leiðrétta. Síðan er oft gott að leyfa tímanum að vinna með sér. Gamall ágreiningur er oft gleymdur eftir sumarfrí. Svo er yfirleitt gott að tala um svona vinavandamál við foreldra sína. Þau bera ábyrgð á velferð þinni og því er mikilvægt að þú treystir þeim fyrir áhyggjum þínum. Ef þessi leiðindi eru ennþá til staðar í haust skaltu endilega ræða þetta við umsjónarkennarann þinn eða námsráðgjafann í skólanum, ef hann er til staðar.
2. Rifrildi heima
Bróðir þinn og foreldrið sem þið búið hjá eru fullorðið fólk sem verða að bera ábyrgð á sér sjálf. Þeirra samskipti verða að vera þeirra mál. Auðvitað er það sárt og erfitt að búa við svona læti en þú berð enga ábyrgð í þessu máli. Ef þér líður illa út af þessu gætir þú haft samband við barnaverndina þar sem þú býrð og látið vita af þessu. Það gæti verið gagnlegt fyrir fjölskylduna, að minnsta kosti foreldrið sem þið búið hjá, að leita ráðgjafar hjá fagfólki eins og t.d. fjölskylduráðgjafa, félagsráðgjafa, presti eða sálfræðingi. Þú skalt ekki vera að hafa áhyggjur af lögreglumanninum sem þú sást fyrir utan hjá ykkur fyrst hann talaði ekki við ykkur. Ef nágrannar ykkar hafa kvartað yfir látunum og rifrildunum er kannski bara gott að lögreglan ræði aðeins við mömmu þína / pabba þinn og bróður. Það þarf ekkert endilega að hafa einhverja eftirmála.
3. Talað illa um hitt foreldrið
Það er því miður lítið sem þú getur gert annað en að halda áfram að biðja foreldrið sem þú býrð hjá að hætta að tala illa um hitt. Þú gætir e.t.v. greint frá því hvernig þetta særir þig. Þú gætir reynt að ræða málið við einhvern nákominn sem þú treystir vel, t.d. ömmu eða afa, frænku eða e.t.v. einhvern sem þú veist að foreldrið þitt tekur mark á (t.d. vinur eða vinkona). Ef það gengur ekki þá gætir þú reynt að fá að ræða málin við einhvern hjá fjölskylduþjónustu sveitarfélagsins.
4. Svitna mikið
Hjá umboðsmanni er enginn með menntun á heilbrigðissviði og því er betra að þú berir upp þessa fyrirspurn við hjúkrunarfræðing eða annað fagfólk. Umboðsmaður mælir með því að því að þú farir á heilsugæslustöðina þína og fáir tíma þar hjá hjúkrunarfræðingi. En þú skalt hafa í huga að fólk svitnar mismikið og það er alveg eðlilegt að svitna. Þú ert örugglega ekki ein um að vera að velta þessu fyrir þér.
Jæja, vonandi gagnast þessi svör þér eitthvað. Í lokin vill umboðsmaður benda þér á hjálparsíma Rauða krossins 1717. Þangað getur þú hringt ókeypis þegar þér líður illa, alveg sama hvað klukkan er. Svo má líka benda þér á að Tótalráðgjöfina, www.totalradgjof.is.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna