Við hvað má ég vinna?
stelpa
15
Hæhæ!
Ég er 15 á 16 ári og er að leita mér að vinnu en ég veit ekki hvert ég á að leita. Ég er að leita bara að hlutastarfi um helgar eða eftir skóla. Hvert get ég leitað og við hvað má ég vinna?
Komdu sæl
Þar sem þú ert orðin 15 ára er heimilt að ráða þig í vinnu nema um sé að ræða störf sem geta stefnt velferð þinni í hættu, til dæmis störf við hættulegar aðstæður.
Þú getur lesið meira um það hér á heimasíðu umboðsmanns barna. Þú mátt því vinna við flest almenn störf. Þú gætir til dæmis prófað að sækja um vinnu í verslunum sem eru nálægt heimili þínu eða kannað hvort það séu laus blaðburðarstörf í þínu hverfi. Auk þess gætir þú athugað hvort einhver sem þú þekkir þurfi á barnapössun að halda.
Þar sem þú ert enn í grunnskóla máttu þó ekki vinna meira en 2 klukkustundir á dag á skóladegi og ekki meira en samtals 12 klukkustundir á viku. Almennt þarf vinnan líka að fara fram eftir kl. 6 á morgnana og fyrir kl. 20 á kvöldin.
Þó það geti verið góð reynsla að vera í hlutastarfi með skóla er mikilvægt að muna að nám í grunnskóla er full vinna. Er því mikilvægt að þú hafir nægan tíma til þess að sinna náminu og njóta þess að gera það sem þér finnst skemmtilegt.
Gangi þér vel!
Kær kveðja frá umboðsmanni barna