Vanlíðan og eignaréttur
stelpa
15
það er nú þannig að mér líður illa heima, það er ekki hlustað á mig, ef ég er með tárin í augunum að reyna að svara fyrir mig við þau er þeim alveg sama og gera bara hálfpartinn grín að mér útaf því og segja að það þýði ekkert að gráta því þau vorkenna mér ekki neitt.
fósturpabbi minn hefur oftar en einu sinni hótað að slá mig og ég má ekki svara neitt fyrir mig útaf neinu því þá verður bara allt brjálað og ég sett í straff. fósturpabbi minn hefur sett mig í kalda sturtu þegar ég var yngri og rassskellti mig líka.
en hafa þau rétt á því að taka af mér tölvu og dót frá mér ef ég á það og ég borgaði fyrir það sjálf ? eða mér var gefið það ? fósturpabbi minn sagði að hann hefði allann rétt til þess, sama hvað þið segðuð.. ég vil bara fá það á hreint hvort það sé satt, Tölvan er á mínu nafni en ekki mömmu eða fósturpabba...
Komdu sæl.
Það er mjög leiðinlegt að heyra hvað þér líður illa og þér á alls ekki að þurfa að líða svona. Fósturpabbi þinn á ekki rétt á því að hóta að slá þig og framkoma hans þegar þú varst lítil, eins og þú greinir frá í bréfinu, var ofbeldisfull að mati umboðsmanns barna. Það hefur enginn rétt á því að beita þig ofbeldi. Það er þrennt sem mig langar til að benda þér á sem þú getur gert varðandi vanlíðan þína.
Ef mamma þín veit ekki hvernig þér líður og hvernig fósturpabbi þinn kemur fram við þig gæti verið gott að leita til einhvers sem þú treystir eins og til dæmis ömmu, afa, frænku, frænda eða vina þinna. Þú getur rætt við þann aðila sem þú vilt um það hvernig ástandið er heima hjá þér og að þér líði ekki vel þar. Þá gæti þessi aðili ef til vill hjálpað þér að tala við mömmu þína og fósturpabba svo að þau skilji hvernig þér líður. Þú gætir líka farið í skólann þinn og athugað hvort að námsráðgjafi eða kennari sem þú treystir sé til staðar til þess að tala við.
Ef þú býrð í Reykjavík getur þú leitað til Fjölskyldumiðstöðvarinnar. Þar getur þú rætt við ráðgjafa sem getur aðstoðað þig við að ræða við mömmu þína og fósturpabba. Ef þú býrð hins vegar ekki í Reykjavík þá getur þú sent okkur aftur skilaboð og segja okkur hvar þú býrð og við getum fundið út hvert þú getur leitað í þínu sveitarfélagi.
Í raun virðist ástandið það alvarlegt að réttast væri að biðja um aðstoð frá barnaverndinni. Við mælum því með því að þú, eða einhver sem þú þekkir, hafir samband við barnaverndina og segir frá aðstæðum þínum. Það fer eftir því hvar þú býrð til hvaða nefndar þú leitar en hér getur þú séð lista yfir barnaverndarnefndir og fundið þá nefnd sem þú getur leitað til. Ef þú segir okkur hvar þú býrð getum við líka fundið út við hvern er best að tala.
Varðandi spurninguna hvort fósturpabbi þinn hafi rétt til þess að taka af þér tölvuna þína og annað dót þá er mikilvægt að hafa í huga að börn njóta sömu mannréttinda og fullorðnir. Börn eiga því rétt á að ráðstafa eignum sínum á þann hátt sem þau kjósa en það verður þó að vera innan skynsamlegra marka. Foreldrum ber að virða eignarrétt barna en hafa þó leyfi til að grípa inn í óæskilega hegðun ef ástæða þykir til. Foreldrum og öðrum er hins vegar óheimilt að takmarka eignarrétt barna sinna að ástæðulausu.
Ef það vakna fleiri spurningar eða þig vantar frekari leiðbeiningar er þér velkomið að hafa aftur samband við okkur. Þú getur líka sent okkur tölvupóst á ub@barn.is og hringt í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna