Vandamál með foreldra
Vil ekki segja
14
Ég elska mömmu mína og pabba en mér fynst ég aldrei gera neitt rétt fyrir þeim ég fæ ekki nóu góðar einkunnir í skola og þau eru alltaf að öskra á mig?
Takk fyrir bréfið. Það er leitt að heyra að þér líði illa heima hjá þér og finnist foreldrar þínir gera of miklar kröfur til þín.
Foreldrar þínir fara með forsjá þína þangað til að þú verður 18 ára en það þýðir að foreldrar þínir ráða persónulegum högum þínum, eiga að tryggja velferð þína, sjá til þess að þú búir við góðar aðstæður og svo ber foreldrum þínum skylda til að annast um þig, sýna þér umhyggju og virðingu og vernda þig fyrir öllu ofbeldi. Það þýðir líka að foreldrar þínir mega ekki sýna þér vanvirðingu eða beita þig ofbeldi af nokkru tagi, þar á meðal andlegu ofbeldi.
Best væri ef þú treystir þér til þess að setjast niður með foreldrum þínum og lýsa því fyrir þeim hvernig þér líður þegar þau öskra á þig og gagnrýna. Þau þurfa að vita að það sé að valda þér vanlíðan og láti þér líða eins og þú getir ekki gert neitt rétt. Það væri líka mjög gott fyrir þig að ræða skólanámið sérstaklega við foreldra þína. Kannski geta þau veitt þér aðstoð við að skipuleggja heimalærdóminn eða aðstoðað þig með öðrum hætti við lærdóminn þannig að þið getið í sameiningu unnið að því verkefni að þú náir góðum tökum á námsefninu og þér líði ekki illa yfir því. Það er mjög mikilvægt að foreldrar þínir fái að heyra að þér líði illa yfir því hvernig þau koma fram við þig því kannski gera þau sér ekki grein fyrir því að hvernig þau tala við þig lætur þér líða illa.
Ef þú treystir þér ekki til þess að gera það gæti verið gott fyrir þig að leita til einhvers annars fullorðins eins og t.d. ömmu eða afa, frænku eða frænda eða einhvers annars sem þú treystir og biðja um aðstoð þeirra við að tala við foreldra þína þannig að þau geri sér grein fyrir því hvernig þér líður.
Þú gætir einnig leitað til aðila í skólanum sem þú treystir eins og námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðings eða umsjónarkennara.
Þér er velkomið að hafa samband aftur við skrifstofu umboðsmanns barna með því að senda okkur skilaboð, tölvupóst á póstfangið ub@barn.is eða hringja í síma 800-5999.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmannni barna