Unglingadeildir í björgunarsveitum
Strákur
14
Vitið þið hvað fylgir því að byrja í björgunarsveitinni ef það et hægt a þessum aldri?
Hæ hæ.
Unglingar geta vissulega tekið þátt í starfi björgunarsveita í gegnum unglingadeildir sem eru 54 um land allt. Þó eru ekki allar björgunarsveitir með unglingastarf en hér er listi yfir unglingadeildirnar skipt eftir landshlutum.
Það er mismunandi hvenær hægt er að byrja í unglingadeild björgunarsveita. Sumar sveitir eru með starf frá 13 – 18 ára, aðrar frá 14 – 18 og enn aðrar frá 15 – 18 ára. Best er að leita upplýsinga hjá umsjónaraðila hjá þeirri sveit sem er í þínu bæjarfélagi til að fá upplýsingar um hvenær hægt er að byrja í starfi unglingadeildar. Þá taka flestar deildir einungis inn nýja félaga að hausti.
Að vera í unglingadeild er í rauninni undirbúningur fyrir nýliðastarf. Þar er veitt kynning á starfi björgunarsveita og fá tækifæri til að prófa allt sem viðkemur björgunarstarfi þó með ákveðnum takmörkunum í samræmi við aldur. Það er í rauninni verið að þjálfa björgunarsveitarfólk framtíðarinnar.
Nánari upplýsingar um starf unglingadeildar björgunarsveita er að finna hér og hér á heimasíðu Landsbjargar þar sem þennan texta er m.a. að finna.
Markmið unglingadeildastarfsins er að þjálfa upp björgunar- og slysavarnafólk framtíðarinnar. Það er gert með kynningum eða námskeiðum í leitartækni, fyrstu hjálp, almennri ferðamennsku, rötun, notkun áttavita, kortalestri, staðsetningartækjum, að binda hnúta, að umgangast slöngubáta og margt fleira.
Björgunarsveitin í þínu bæjarfélagi ætti að geta veitt þér meiri upplýsingar um þeirra starf, hvort það sé unglingadeild og þá hvert aldurstakmarkið er í hana og í hverju starf björgunarsveita felst nákvæmlega. Hér er listi yfir allar björgunarsveitirnar.
Gangi þér sem allra best.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna