Um vímuefnaneyslu ungs fólks - foreldrar - lögregla
stelpa
16
Ég er mikið búin að vera að vellta því fyrir mér afhverju er neysla dóps orðin svona mikil á Íslandi og afhverju er ekki tekið harðar á þessu því að ég veit að það er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Flest allir gömlu vinir mínir úr grunnskóla eru að prufa að nota dóp og sumir lengra sokknir inní þetta en aðrir og svo veit ég líka um eina manneksju sem er byrjuð að selja á fullu. Ef mig mundi langa til að láta einhvern vita af því þegar þau eru t.d. að dópa eða eru að meðhöndla dóp einhvern sem getur gert eitthvað í þessu með valdi t.d. eins og lögregluna en langar bara alls ekki að koma undir nafni því að ég veit eins og í bæjarfélaginu sem ég bý í þá fréttist svo margt og allir vita allt um alla og ég gæti bara alls ekki hugsað mér að labba inná lögreglustöðina og gefa löggunni upp nafnið á aðilanum sem ég þekki sem er að selja þó að mig langi rosalega til þess. Og svo er líka það að það er eins og foreldrarnir séu ekkert að fatta að meiri hlutinn af unglingum á mínum aldri eru að fikta og prufa að nota dóp og sumir eru svo djúpt sokknir að þeir komast ekki framm úr rúminu á morgnanna nema að fá sér eina línu. Ég er sjálf ekki í þessu og þess vegna veit ég ekki alveg hvernig þetta virkar en mjög góð vinkona mín er byrjuð að taka þátt í þessu og því frétti ég frá henni að það séu alltaf fleiri og fleiri að prufa þetta og séu í þessu en ég hef ekki prufað þetta sjálf þannig að ég veit ekki alveg hvernig þetta virkar. En hvað get ég gert á ég að láta einhvern vita eða ekkert að vera að skipta mér af þessu "pakki" sem voru einu sinni vinir mínir....
Komdu sæl
Það er gott hjá þér að standa fast á ákvörðun þinni að prófa ekki fíkniefni. Hins vegar er leitt að heyra að vinir þínir úr grunnskóla séu mörg byrjuð að neyta fíkniefna. Ef þú vilt benda yfirvöldum á þetta ástand vill umboðsmaður barna benda þér á upplýsingasíma ríkislögreglustjórans. Þar er tekið við upplýsingum um fíkniefnamál, hvaðanæfa af landinu.
Upplýsingasíminn 800 5005 er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann. Hafir þú upplýsingar varðandi fíkniefnamál, sem þú vilt koma á framfæri, getur þú hringt nafnlaust í síma 800 5005. Símsvari tekur við skilaboðum frá þér og þú getur valið um hvort þú vilt gefa upp nafn þitt eða ekki.
Starfsmenn fíkniefnastofu ríkislögreglustjórans taka niður upplýsingar sem kunna að berast og koma þeim áleiðis til lögregluembættanna eins og þurfa þykir. Til eru fleiri leiðir til að koma upplýsingum á framfæri. Þú getur t.d. sent tölvupóst til fíkniefnastofu ríkislögreglustjórans (info@rls.is) og þannig komið á framfæri vitneskju, sem þú telur geta komið að liði við að stemma stigu við fíkniefnavandanum.
Þessar upplýsingar eru teknar af vef lögreglunnar, www.logreglan.is.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna