Trúnaður heilbrigðisstarfsfólks við börn
Vil ekki segja
Umboðsmanni barna barst fyrirspurn um hvort læknar eða heilbrigðisstarfsmenn megi segja foreldrum frá því ef þeir komast að því að barn hafi verið að neyta vímuefna. Ekkert netfang fylgdi fyrirspurninni og er því svarið birt hér á heimasíðunni.
Í stuttu máli eiga börn rétt á trúnaðarsamskiptum við heilbrigðisstarfsfólk, til dæmis ef barn þarf ráðgjöf vegna ýmsra mála. Heilbrigðisstarfmaðurinn er þá bundinn trúnaði við barnið en hann gæti þurft að rjúfa trúnað vegna tilkynningarskyldu til barnaverndar eða ef afskipti foreldra eru nauðsynleg til þess að aðstoða barnið.
Þá er líka mjög mikilvægt að börn fari til læknis eða tali við heilbrigðisstarfsmann ef þau hafa neytt lyfja og líður ekki vel eða skringilega.
Börn eiga sjálfstæðan rétt til trúnaðarsamskipta við heilbrigðisstarfsmenn og þegar barn óskar eftir trúnaði um einkamál sín ber að virða það eins og kostur er. Það er hluti af sjálfstæðum rétti barna til friðhelgi einkalífs. Börn eiga þannig að getað leitað sér ráðgjafar um ýmis málefni, eins og til dæmis heilsufar, getnaðarvarnir, ofbeldi sem barnið hefur upplifað, vanrækslu á heimili sínu eða bólusetningar og fengið upplýsingar frá heilbrigðisstarfsmanni án þess að heilbrigðisstarfsmaðurinn segi foreldrum eða forsjáraðilum frá því. Hins vegar verða heilbrigðisstarfmenn alltaf að virða tilkynningaskyldu til barnaverndar ef hún á við. Það þýðir að ef heilbrigðisstarfsmaður fær upplýsingar um að barn sé að gera hluti sem gætu skaðað það eða að aðstæður á heimilinu séu ekki nógu góðar fyrir barnið til að lifa og þroskast þá verður hann að tilkynna um aðstæður barnsins til barnaverndarnefndar. Barnaverndarnefndin er til staðar fyrir barnið og á að hjálpa barninu og fjölskyldunni svo að barninu líði betur. Ef heilbrigðisstarfmsaður þarf að rjúfa trúnað vegna tilkynningaskyldu til barnaverndar og/eða ef afskipti foreldra eru nauðsynleg til þess að aðstoða barnið þá á að segja barninu frá því og af hverju það er nauðsynlegt að tilkynna málið til barnaverndar og/eða tala við foreldra barnsins.
Það er líka gott að vita að það er hægt að tala við hjúkrunarfræðing um allt sem tengist heilbrigði og öðru því tengdu á virkum dögum á dagvinnutíma í netspjalli á heimasíðunni www.heilsuvera.is. Ef það er send inn spurning á netspjallið á kvöldin, helgar eða á nóttunni þá er svarað í síðasta lagi næsta virka dag. Þar er líka að finna upplýsingar um hin ýmsu mál en einnig má benda á www.attavitinn.is sem er upplýsingagátt sem er miðuð að ungu fólki á aldrinum 16 – 25 ára.