Til útlanda án leyfis foreldra?
stelpa
16
hæ, ég er 16 ára og mig langar að fara til útlanda þegar skólinn er búinn, þá aðallega bandaríkjanna. þarf ég að fá leyfi forledra?? Hafa þau rétt til að banna mér að fara?
Komdu sæl
Það er ekkert í lögum sem beinlínis bannar ferðaskrifstofum eða flugfélögum að selja börnum yngri en 18 ára farseðla til útlanda. Hins vegar er í barnalögum, n.t.t. 28. gr., fjallað um foreldraskyldur og inntak forsjár. Þar segir m.a.:
Forsjá barns felur í sér rétt og skyldu fyrir foreldri til að ráða persónulegum högum barns og ákveða búsetustað þess.
Því verður að teljast eðlilegt að haft sé samráð við foreldra eða aðra forráðamenn þegar börn undir 18 ára aldri vilja kaupa sér farmiða til útlanda.
Flestar ef ekki allar ferðaskrifstofur biðja um sönnun þess að fyrir liggi samþykki foreldra eða forsjáraðila þegar börn vilja kaupa sér ferðir til útlanda. Nú kaupa auðvitað flestir flugmiða á netinu sem gerir þetta allt flóknara en lögin verða að sjálfsögðu allir að virða.
Umboðsmaður mælir með því að þú ræðir málin við foreldra þína. Þau bera ábyrgð á velferð þinni og því geta þau í rauninni bannað þér að fara ef þau hafa áhyggjur af þér eða ef þau telja að svona ferðalag sé ekki heppilegt fyrir þig. Best væri auðvitað að þið kæmust að sameiginlegri niðurstöðu sem þið eruð sammála um að sé þér fyrir bestu.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna