Sund og útivistartími
Má reka börn upp úr sundlaug fyrr til að virða útivistartíma þeirra?
[Ég] er 11 ára og hef mátt fara í sund einn síðan ég var 10 ára. Sundlaugin er opin til 21:30 og núna þegar útivistartíminn breyttist þá erum við rekinn uppúr kl 19:15 til að geta komið okkur heim fyrir 20:00. En ég má fara á handboltaleik og labba heim eftir útivistartíman. Skil ekki afhverju ég má ekki vera í sundi og mamma eða pabbi ná í mig. Meiga starfsmenn sundlaugar reka okkur uppúr. Er betra að við förum heim í síman eða tölvu í stað þess að fá útrás í sundi ?
Svar frá umboðsmanni barna:
Takk fyrir spurninguna. Þetta er mjög góð spurning.
Svarið við spurningu þinni í stuttu máli er já, það má reka þig upp úr sundlauginni til að þú komist heim til þín áður en klukkan verður átta frá 1. september – 1. maí ef enginn fullorðinn er til að fylgja þér heim.
Í reglum sundlauga í sveitarfélaginu Árborg kemur fram að frá 1. september – 1. maí er börnum 10 – 12 ára vísað upp úr sundlaugunum kl. 19:30 svo þau hafi tíma til að komast heim til sín fyrir lok útivistartíma sem er kl. 20:00. Ef foreldri eða forsjáraðili er á svæðinu (í sundlaug eða líkamsrækt) þá geti þau hins vegar verið lengur, enda á ábyrgð foreldra sinna.
Þó að aðrar sundlaugar hafa ekki sett sér slíkar reglur þá er ekki bannað að gera það til þess að virða lög um útivistartíma barna.
Útivistartími barna er nefnilega í barnaverndarlögum en þar segir í 92. gr. að börn sem eru 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir kl. 20.00 nema í fylgd með fullorðnum frá 1. september – 1. maí. Útivistartíminn lengist svo um tvær klukkustundir yfir sumartímann frá 1. maí – 1. september.
Útivistarreglurnar voru settar til þess að vernda börn en ýmsar ástæður eru fyrir því að takmarka útivist barna og unglinga á kvöldin, til dæmis:
- Nægur svefn er mikilvæg forsenda góðrar heilsu, vellíðunar og árangurs í skólanum og á öðrum sviðum.
- Það að vera komin heim á skikkanlegum tíma og eiga smá stund heima fyrir háttinn hjálpar vaxandi fólki að fara fyrr að sofa.
- Þreytt og illa sofið fólk er líklegra til að lenda í slysum og óhöppum, sérstaklega þegar dimma tekur.
Ef þú hefur einhverjar aðrar spurningar er þér velkomið að senda okkur þær.
Með góðri kveðju frá umboðsmanni barna