Stundum líður mér eins og enginn skilji mig og ég sé alveg ein
stelpa
15
Mér finnst stundum eins og mömmu minni þykji nákvæmlega ekkert vænt um mig! Ég veit að það er bara bull en stundum líður mér eins og enginn skilji mig og ég sé alveg ein. Ég á frábærar vinkonur en stundum er það ekki nóg, ég missti pabba minn fyrir 5 árum og stundum verið strítt á því!! Mér líður oft ekkert vel. Ég er 167 á hæð og ekki eðlileg í vexti!! Má ég fá einhverjar ráðleggingar um svona hluti
Komdu sæl
Það er leitt að heyra að þér líði stundum svona illa. Þegar þér líður illa skaltu endilega segja einhverjum frá því. Best er að tala við einhvern sem þú treystir vel eins og t.d. mömmu þína, eldri systkin, ömmu eða afa.
Ef þér líður illa og þér finnst enginn í kring um þig vilja eða hafa tíma til að hlusta á þig, vil ég benda þér á nokkra aðila sem þú getur leitað til. Í fyrsta lagi getur þú sest niður og spjallað við námsráðgjafann í skólanum þínum en hann/hún á að aðstoða ungt fólk að takast á við persónulega erfiðleika, jafnt sem námstengda erfiðleika. Einnig átt þú að geta rætt við umsjónarkennara og skólahjúkrunarfræðinginn. Ef þér hefur verið strítt í skólanum á því að eiga ekki pabba á lífi er það mjög alvarlegt mál. Það er því mikilvægt að skólinn viti af því til að hægt sé að bregðast við þessu. Þér á ekki að líða illa í skólanum. Rauði krossinn er með hjálparsímann 1717 sem er opinn allan sólarhringinn. Þegar þér lður illa getur þú hringt þangað og rætt við starfsfólk hjálparsímans í trúnaði.
Þá er vert að benda þér á ráðgjöf fagfólks sem stendur þér líka til boða:
-
Tótalráðgjöf - Áttavitinn býður upp á heildræna ráðgjöf fyrir unglinga. Þú getur sent tölvupóst, komið í viðtal eða talað við starfsfólk Tótalráðgjafarinnar í síma. Heimasíðan er www.totalradgjof.is. Númerin hjá þeim ráðgjöfum sem alltaf eru til staðar í húsinu eru 520-4604, 520-4621 og 520-4612.
-
Barna- og unglingageðdeildir (BUGL) veita þjónustu til barna og unglinga með tilfinningavanda. BUGL býður upp á unglingasíma sem er 543 4357.
-
Svo má nefna presta, en mörgum finnst mjög gott að fara til prestsins síns og ræða við þá um erfiðleika sína. Jafnvel þótt þú þekkir sóknarprestinn þinn ekki neitt, þá átt þú samt að geta komið til hans eða hennar með vandamál þín og hugleiðingar.
-
Mörg sveitarfélög bjóða íbúum sínum upp á fjölskylduráðgjöf. Þangað geta börn leitað til að ræða og fá lausn á vandamálum sínum. Hér er listi yfir öll sveitarfélög landsins. Með því að smella á viðkomandi sveitarfélag kemst þú inn á heimasíðu þíns sveitarfélags. Hafðu samband við sveitarfélagið þitt til að fá upplýsingar um fjölskylduþjónustuna.
Börn og unglingar sem missa foreldri eða annan náinn ástvin bera þá lífsreynslu með sér alla tíð. En þó að ástvinamissir sé ein erfiðasta lífsreynsla sem nokkur gengur í gegnum þá er hægt að lifa með sorginni – þó að söknuðurinn verði áfram til staðar. Það verður auðveldara með tímanum.
Ný dögun eru samtök um sorg og sorgarviðbrögð. Samtökin eru öllum opin og þar er fólk sem veitir stuðning og ráðgjöf til þeirra sem hafa misst ástvin (þó að einhver ár séu liðin frá andlátinu).
Gangi þér vel.
Kveðja frá umboðsmanni barna