Staðsetningarapp í síma
Mega foreldrar setja app í síma sem birtir staðsetningu manns alltaf til þeirra án leyfis?
Takk fyrir erindið.
Börn eiga sjálfstæðan rétt til friðhelgi einkalífs. Sá réttur er tryggður í 71. gr. stjórnarskrár Íslands og 16. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er mikilvægt að foreldrar virði einkalíf barna sinna.
Réttur barna til einkalífs er hins vegar ekki takmarkalaus. Foreldrar eiga að veita börnum sínum vernd og gæta þeirra. Hvort réttlætanlegt sé að foreldrar setji app í síma barna sinna sem sýnir staðsetningu þeirra þarf að meta í hverju tilviki fyrir sig. Þar hefur aldur og þroski barnsins áhrif. Ef foreldra grunar t.d. að barnið þeirra sé í vandræðum ber þeim skylda til þess að grípa til aðgerða til þess að vernda barnið og koma því til aðstoðar.
Foreldrar eiga að taka aukið tillit til friðhelgi einkalífs barns með auknum aldri þess og þroska. Það er líka mikilvægt að foreldrar ræði við barnið sitt áður en staðsetningarapp er sett í símann þeirra og útskýri af hverju þau vilji gera það. Börn hafa rétt á því að vera höfð með í ráðum þegar ákvörðun er tekin um þeirra persónulegu málefni, þar með rétt til að tjá sig um allar ákvarðanir sem áhrif hafa eða geta haft á þeirra einkalíf.
Með góðri kveðju frá umboðsmanni barna