Skjátími
Hversu lengi má ég vera í síma, tölvu og horfa á sjónvarpið?
Hæ, hæ.
Foreldrar eiga að setja reglur um það hversu lengi börn og aðrir á heimilinu mega vera í síma, tölvu og horfa á sjónvarpið.
Gott er að foreldrar tali við börnin sín um heilbrigða skjánotkun (þegar horft er á sjónvarpið, síma, ipad, tölvu og fleira) og setji reglur með börnunum sínum sem gilda á heimilinu um það hvernig tækin eru notuð og hversu lengi má nota þau og á hvaða tíma. Börn eiga alltaf rétt á því að segja sína skoðun og foreldrar eiga að taka tillit til þeirra og taka meira mark á skoðunum barna eftir því sem þau eldast og þroskast.
Það er líka mjög mikilvægt passa það að skjánotkun trufli ekki svefn, heimalærdóm eða tómstundir hjá börnum en börn á skólaaldri ættu að ná um 10 klukkustunda svefni á nóttu.
Það er því ekki ákveðinn tími fyrir ákveðinn aldur heldur ættu foreldrar og börn að móta saman reglur um skjátíma á heimilinu.
- Hérna má finna góð ráð til að móta reglur fyrir 6-12 ára börn.
- Hér má líka sjá viðmið til að móta reglur um skjánotkun út frá öðrum aldri.
Ef þú ert með einhverjar fleiri spurningar þá máttu senda okkur aftur póst eða hringja í okkur í barnasímann (kostar ekkert) í síma 800-5999
Með góðri kveðju frá umboðsmanni barna