Sjálfsaflafé - Umgengni
stelpa
13
Á pabbi minn rétt á því að taka tölvuna mína af mér sem ég keypti fyrir mína eigin peninga sem ég vann mér inn fyrir sjálf ? Og á ég rétt á því að ef foreldrar mínir séu að fara að skilja, og ég og systir mín eigum að heimsækja pabba aðra hverja helgi, á ég þá rétt á því að heimsækja hann ekki... aldrei... ?
Komdu sæl
Börn njóta allra sömu mannréttinda og fullorðnir, m.a. eignarréttar. Þótt börn séu ófjárráða upp að 18 ára aldri ráða þau sjálf yfir peningum sem þau hafa unnið sér fyrir eða fengið í gjöf. Pabbi þinn má því ekki taka tölvu sem þú hefur greitt fyrir með þínum eigin peningum.
það er þó nauðsynlegt að hafa í huga að foreldrar þínir bera ábyrgð á velferð þinni og þarf því að veita þeim ákveðið svigrúm. Þannig gæti verið heimilt fyrir pabba þinn að taka af þér tölvuna tímabundið ef hann telur það nauðsynlegt til þess að tryggja hagsmuni þína, t.d. ef þú ert svo mikið í tölvunni að það komi niður á námi þínu eða ef þú notar tölvuna til að eiga óæskileg samskipti sem stofna velferð þinni í hættu.
Þú spyrð einnig hvort þú þurfir að umgangast pabba þinn.
Það er réttur þinn að umgangast reglulega báða foreldra þína eftir skilnað. Það er líka bæði réttur og skylda þess foreldris sem þú býrð ekki hjá að rækta samband sitt við þig.
Ef þú ert ekki sátt við að umgangast pabba þinn skaltu endilega reyna ræða það við foreldra þína. Ef þér líður ekki nógu vel á hjá honum er mikilvægt að foreldrar þínir viti af því. Þau eiga að hlusta á þig og taka réttmætt tillit til skoðana þinna. Þótt foreldrar þínir taki endanlega ákvörðun um umgengni ber þeim að haga málunum eins og er þér fyrir bestu.
Það gæti verið góð hugmynd fyrir þig að ræða við pabba þinn. Þið getið e.t.v. komist að samkomulagi sem þið eruð bæði sátt við.
Hér á heimasíðu umboðsmanns barna er umfjöllun um skilnað foreldra. Þar er líka fjallað um umgengni barna og foreldra.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna