Sauðburður
Stelpa
14
Mega foreldrar mínir neyða mig til þess að vinna í sauðburðinum?
Hæ
Sauðburður er væntanlega stór partur af þínu heimilishaldi þar sem allir þurfa að leggja eitthvað af mörkum á þeim tíma sem hann stendur yfir. Það er eðlilegt að unglingar taki þátt í heimilisstörfum og leggi sitt af mörkum til sameiginlegs heimilis fjölskyldunnar og það sama á því við um sauðburð upp að vissu marki. Það getur verið matsatriði og eflaust eru ekki allir sammála hversu mikið er eðlilegt að biðja börn um að gera. Þá geta aðstæður fjölskyldna verið mismunandi og á heimili þar sem sauðburður er hafinn getur álagið væntanlega verið nokkuð mikið. Það gæti því verið eðlilegt að heimilismenn leggi sitt af mörkum til að létta undir.
Það ber líka að hafa í huga aldur og þroska barna þegar ákveðið hvað barn skal gera og hversu mikinn þátt það á að taka í sauðburði eða heimilisstörfum. Það væri best ef börn og foreldrar geti komið sér saman um skipulagið hverju sinni.
Ef þú ert ekki sátt þá skaltu endilega ræða um það við foreldra þína,sérstaklega ef það að hjálpa mikið til við sauðburðinn er að bitna á skólavinnu þinni, hvíld, tómstundum eða samskiptum við vini og félaga. Foreldrar eiga að hlusta á börn sín og taka tillit til skoðana þeirra.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna