Rifrildi í bekknum
stelpa
12
Mér finnst svolítið leiðinlegt að það er alltaf eitthvað vandamál í bekknum og ég er orðin allveg svakalega þreytt á því. Þetta er sko alls ekki venjulegur bekkur!!!! Við rífumst stöðugt. Það er til dæmis eitt vandamál og svo kemur strax annað. Við getum alldrei verið bara vinkonur!!! Geturðu hjálpað okkur?
Komdu sæl.
Já, það er alls ekki skemmtilegt að vera alltaf að rífast. Það er vel skiljanlegt að þú sért orðin þreytt á því. Á þessum aldri getur verið ansi erfitt að halda í vinskap, sérstaklega hjá stelpum og geta „vinkonu-vandamálin“ oft verið mjög snúin. Í öllum samskiptum geta komið upp vandamál, oftast vegna einhvers misskilnings og með vináttu kynnist maður því að verða stundum fyrir vonbrigðum. Maður lærir það líka að jafna sig fljótt eftir vonbrigði og misskilning og að vinir sættast aftur.
Besta leiðin til að leysa slík vandamál er að ræða saman í rólegheitum. Það gæti verið mjög gott fyrir ykkur að fá t.d. umsjónakennarann ykkar, námsráðgjafann eða einhvern annan sem þið treystið, til að hjálpa ykkur með samskiptin. Það er hægt að komast ansi langt með því að tala saman og komast að einhverju samkomulagi um að bæta samskiptin. Það væri samt gott ef þú myndir ráðfæra þig áður við einhvern sem þú treystir, t.d. mömmu þína eða pabba. Þú skalt treysta því að þau hlusti á þig og leiðbeini þér. Gangi ykkur vel.
Kveðja frá umboðsmanni barna.