Réttindi nemenda í verkfalli kennara.
strákur
15
Sæl vertu, Ég sendi á fyrrverandi Umboðsmann barna eftirfarandi spurningu: "Er það ekki mannréttindabrot gagnvart börnum að fara í verkfall ? Samkvæmt 28 gr. Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna eiga börn rétt á menntun." Í kringum verkfallið núna fyrir áramót. Svar hennar var lengra og ýtarlegra en ég ætla smá bút fylgja með úr því svari. "Hins vegar má segja að þegar ósamrýmanleg réttindi mætast, eins og í þessu tilfelli réttur barna til menntunar og réttur kennara til að fara í verkfall, þá verður annar að víkja." Hver er ástæða þess að hagsmunir okkar víkja? er réttur okkar til náms ekki ekki sá sami og réttur kennara til að fara í verkfall?
Hver er ástæða þess að okkar hagsmunir víkja ? Þetta er ekkert einsdæmi mér þykir þetta vera frekar algengt að traðkað sé á okkar hagsmunum. Þó þetta hafi verið orðað ansi smekklega hjá henni er ekki verið að gera neitt annað en að troða á okkar hagsmunum að mínu mati. Og allir komast upp með það vegna þess að við erum bara börn og höfum ekki þau völd og ítök sem fullorðið fólk hefur.
Komdu sæll
Augljóst er að þessi réttindi eru ósamþýðanleg. Verkfallsrétturinn er almennt mjög ríkur. Við aðstæður sem þessar hefur það sjónarmið verið ríkjandi að hinn sértæki réttur, í þessu tilviki réttur kennara til að gera verkfall, gangi framar hinum almenna rétti, þ.e. skólaskyldu barna og rétti þeirra til menntunar, því að öðrum kosti væri hinn sértæki réttur, verkfallsrétturinn, þýðingarlaus. Með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi hefur íslenska ríkið skuldbundið sig að þjóðarétti til að ábyrgjast verkfallsrétt allra stétta.
Eðli málsins samkvæmt eru margir sem þurfa að sæta því að þjónusta/réttindi þeirra skerðist þegar ákveðnar stéttir beita verkfalli fyrir sig í kjarabaráttu. Í þessu tilviki síðastliðið haust urðu grunnskólanemar fyrir því. Sem önnur dæmi má nefna að ef stétt í heilbrigðisþjónustu myndi fara í verkfall myndu sjúkir og slasaðir þurfa að líða skerta þjónustu og ef strætóbílstjórar myndu fara í verkfall myndi það raska miklu hjá almenningi og fyrirtækjum í landinu.
Umboðsmaður barna sendi ríkisstjórn Íslands bréf, dagsett 9. nóvember 2004, þar sem hún skorar á ríkisstjórnina að beita sér nú þegar fyrir lausn á kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaga:
Yfirstandandi verkfall grunnskólakennara hefur fyrst og fremst bitnað á þeim, sem síst skyldi, þ.e. börnum þessa lands, og hætta er á því að mörg þeirra muni bíða ómetanlegt tjón ef það dregst enn frekar á langinn.
Grunnskólinn er vinnustaður barna og því er með öllu óþolandi að þeim sé haldið frá vinnu sinni svo að vikum skiptir. Réttur barna til skólagöngu er þar með fyrir borð borinn þrátt fyrir lögboðna skyldu hins opinbera til að sjá þeim fyrir almennri menntun og fræðslu.
Í ljósi þeirrar stöðu, sem nú er upp komin í samningaviðræðum sveitarfélaga og samtaka kennara, þar sem engin lausn virðist í sjónmáli, beini ég, sem umboðsmaður barna, þeirri eindregnu áskorun til ríkisstjórnarinnar að beita sér nú þegar fyrir lausn á þessari kjaradeilu í samráði við deiluaðila til þess að endi verði bundinn á þetta ófremdarástand sem allra fyrst.
Í framhaldi af þessari áskorun var umboðsmaður barna boðaður á fund með forsætisráðherra, menntamálaráðherra og félagsmálaráðherra til að ræða þessa alvarlegu deilu. Þar fékk umboðsmaður tækifæri til að reifa málið og stöðu þess út frá hagsmunum skjólstæðinga sinna. Fundur þessi var haldinn í Stjórnarráðshúsinu 11. nóvember sl.
Hinn 15. nóvember sendi umboðsmaður barna svo Félagi grunnskólakennara bréf þar sem hún mælist til þess við grunnskólakennara að þeir sýni börnum þessa lands virðingu og mæti þegar í stað til vinnu sinnar í grunnskólum, eins og lög bjóða. Börn eru skólaskyld og þau eiga stjórnarskrárvarinn rétt til menntunar og fræðslu. Virðingarleysi fyrir þessum réttindum barna er engum til sóma.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna