Ráða foreldrar um menntaskóla
Stelpa
16
Ráða foreldrar mínir hvort ég fari í menntaskóla?
Í stuttu máli er svarið nei – foreldrar ráða því ekki hvort barn þeirra fari í framhaldsskóla eða ekki.
Þegar barn klárar grunnskóla er skyldunámi lokið og það ræður því sjálft hvort það sæki um framhaldsskóla eða ekki. Foreldrar bera þó ennþá ábyrgð á börnum sínum og eiga að gera sitt besta til þess að sjá til þess þau fái menntun eða starfsþjálfun við hæfi. Foreldrar reyna því oft að hvetja börnin sín til þess að fara í einhvers konar nám.
Enda er það almennt talið best fyrir ungmenni að halda áfram í skóla og umgangast jafnaldra sína í uppbyggilegu umhverfi.
Það er þó afar misjafnt hvers konar nám hentar hverjum og einum. Það getur því verið gagnlegt að ræða við námsráðgjafa og heyra hvaða nám eða starfsþjálfun er í boði.