Ósanngjarn sundkennari
stelpa
11
Sundkennarinn minn gerir bara athugasemdir hjá mér en engum öðrum. Ég var í sundi og var að synda bringusund og fæturnir mínir ekki alveg samtaka. Það voru tvær brautir á milli míns og sundkennarans og hún hrópaði alltaf: ,, þú átt ekki að synda skriðsund með löppunum! Syntu bringusund!" Alveg sama hvað ég reyndi að segja henni oft að ég væri að synda bringusund en hún tók ekkert mark á mér! Hún setti bara athugasemd við mig! Hún var ekkert að kippa sig við það þó að sumar væru að svindla. Þetta var svo óréttlátt að ég fór að gráta. Ég er verulega viðkvæm og get ekkert að því gert. Þá sagði kennarinn: ,,af hverju ertu að væla? Þú ert alltaf að væla!"
Komdu sæl.
Það er leitt að heyra hvernig sundkennarinn þinn kemur fram við þig. Það er mikilvægt að þú ræðir þetta við einhvern fullorðinn sem þú treystir, t.d. foreldra þína, umsjónarkennarann þinn eða námsráðgjafann í skólanum. Þessir aðilar geta í framhaldinu rætt við sundkennarann og gert honum grein fyrir því hvernig framkoma hans hefur áhrif á þig. Kennarar eiga að sýna nemendum sínum virðingu og efla sjálfsmynd þeirra - ekki brjóta hana niður.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna