Óréttlátt að mega bara koma með ávexti í morgunnesti
stelpur
10
Við erum tvær 10 ára stelpur. Okkur finnst óréttlátt að í skólanum okkar megi bara koma með ávexti í morgunnesti því maður verður alltaf svo svangur yfir daginn.
Halló og takk fyrir erindið
Í handbók fyrir skólamötuneyti er talað um að fyrir þau börn sem borða morgunmat áður en þau koma í skólann, og eiga von á hádegismat, dugi ávöxtur og drykkur í nestistímanum um miðjan morgun. Hins vegar kemur einnig fram að þau börn sem borða lítið á morgnana vegna lystarleysis eða tímaskorts þurfi þó meiri næringu í nestistíma, eins og t.d. brauð og mjólk.
Umboðsmaður barna telur að það ætti ekki að banna börnum að koma með brauð, skyr eða eitthvað annað hollt í morgunnesti. Það hlýtur að vera hægt að komast að samkomulagi um þetta. Það er snjöll hugmynd að safna undirskriftum og afhenda þær svo skólayfirvöldum. Gott væri að fá stuðning frá einhverjum fullorðnum, t.d. foreldrum, skólahjúkrunarfræðingnum eða öðru starfsfólki skólans. Ef það er nemendaráð í skólanum er líka hægt að vinna að málinu í gegn um það.
Í lokin má þó geta þess að það er mjög gott að gefa sér tíma til þess að borða morgunmat heima áður en maður fer í skólann. Þá ætti ávöxtur að duga í morgunnestið.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna