Mygla í skólum
Það kom mygla upp í skólanum mínum og nú á að flytja skólann minn frá Eyrabakka og yfir á Stokkseyri. Mér finnst á mér brotið og vil spyrja hvort þeir geti gert þetta án samráðs við okkur krakkana og foreldra?
Hæ og takk fyrir póstinn.
Stutta svarið við spurningunni þinni er jú, það á að hafa samráð við börn þegar teknar eru ákvarðanir sem varða þau, eins og til dæmis að breyta um skólahúsnæði.
Þegar upp kemur mygla í skólum eins og hefur gerst hjá þér þá er mjög mikilvægt að bregðast fljótt við til að börn og starfsfólk veikist ekki vegna myglunnar. Börn eiga nefnilega rétt á besta mögulega heilsufari sem völ er á og mygla getur verið slæm fyrir heilsu barna. Þess vegna er mikilvægt að bregðast fljótt við til að vernda heilsu barna þannig að þau þurfi ekki að stunda nám í húsi sem mygla er í. Það er skiljanlegt að fyrst sé fundið bráðabirgðahúsnæði til að halda áfram að kenna af því að það er mikilvægt að börn geti komist í skóla og fengið menntun og hitta aðra krakka. Það verður samt alltaf að passa upp á réttindi barna, líka þegar erfiðar aðstæður koma upp. Börn eiga rétt á að segja sína skoðun og það á að taka tillit til þeirra eftir því sem börn eldast og þroskast. Þetta stendur í 12. gr. Barnasáttmálans sem er sáttmáli um réttindi barna.
Árborg er sveitarfélagið sem ber ábyrgð á skólanum og samkvæmt Barnasáttmálanum þarf alltaf að taka ákvarðanir sem tengjast börnum með því sem er börnum fyrir bestu. Það stendur í 3. gr. Barnasáttmálans. Það á því alltaf að hafa samráð við börn þegar ákvarðanir eru teknar sem varða þau og líka veita þeim upplýsingar þannig að þau viti hvað er í gangi og hver eru næstu skref eiga að vera. Það þarf að tala við börn og útskýra fyrir þeim hvað sé í gangi þannig að þau skilji það og gefa þeim tækifæri á að segja hvernig þeim líður og hvað þau vilja þegar það á að breyta einhverju í umhverfi þeirra, eins og til dæmis að skipta um skólahúsnæði.
Ef þú hefur einhverjar fleiri spurningar er þér velkomið að senda okkur aftur skilaboð, gangi ykkur vel.
Með góðri kveðju frá umboðsmanni barna