Mig vantar svo vini!
strákur
12
Ég er hérna 12 ára strákur sem geri nú bara ekkert annað en að vera í tölvu, það er mitt áhugamál, ég á aðeins eina vinkonu ef ég tel þá upp sem leika svona einstaka sinnum við mig. En mig finnst alveg eins og hún er bara að nota mig ef vinkonur hennar eru ekki heima. Mig vantar svo vini! Mér finnst bara svo hræðilega asnalegt að troða mér inní eitthverja vinahópa sem ég er aldrei með. Svo geri ég eiginlega ekki mikið meira en í tölvunni á daginn. Mig langar svo að fara að gera eitthvað annað og hætta þessari tölvunotkun.
Komdu sæll
Gott hjá þér að skrifa. Maður verðu jú að byrja einhvers staðar ef maður vill breyta hlutum í lífinu.
Það er nú samt gott að þú átt þessa vinkonu. Þú skalt endilega halda sambandi við hana. Kannski getið þið saman spurt hvort fleiri krakkar vilja gera eitthvað með ykkur, t.d. fara í útileiki, spila, fara út að hjóla, í sund eða eitthvað slíkt. Þannig stækkar "þægindahringurinn" og samskipti við aðra krakka verða kannski auðveldari.
Það eru til ýmsar leiðir til að eignast nýja vini. Það skiptir miklu máli að reyna að vera jákvæður. Oft er auðveldara að kynnast fólki á öðrum vettvangi en í skólanum. Athugaðu hvað er í gangi í þínu bæjarfélagi / hverfi. Þú gætir t.d. kannað hvaða greinar íþróttafélögin bjóða upp á. Svo gæti félagsmiðstöðin, skátarnir, Rauði krossinn eða kirkjan líka verið með unglingastarf, námskeið eða klúbb sem þú gætir haft áhuga á að reyna. Ef þú hefur eitthvert afmarkað áhugamál eins og t.d. tölvur, skák, vísindi eða einhvers konar söfnun gætir þú auglýst í skólanum þínum, bókasafninu eða félagsmiðstöðinni eftir einhverjum með sama áhugamál. Þá væri hægt að hittast og ræða um áhugamálið.
Námsráðgjafinn í skólanum þínum getur örugglega hjálpað þér með að finna aðrar leiðir sem henta þér.
Gangi þér vel!
Kveðja frá umboðsmanni barna