Mér líður eins og fitubollu
stelpa
13
Er ekki ánægð með sjálfan mig!!!! Mér líður illa. Stelpurnar í bekknum mínum eru svo grannar að það er ekki eðlilegt. Ég er svoldið breið en ekki svo! Mér líður eins og fitubollu ! Af hverju getur mér ekki liðið eins og þær?
Komdu sæl
Allir hafa hugmynd um hvernig þeir vilja líta út. Yfirleitt er fólk allt of gagnrýnið á sjálft sig og óhóflega miklar kröfur gera ekkert nema auka sjálfsóánægjuna.
Það er alveg eðlilegt að velta útlitinu fyrir sér en því miður er maður miklu duglegri að finna galla á sjálfum sér en öðrum. Stelpurnar sem þú er að miða þig við hafa líka alveg örugglega áhyggjur af einhverju í fari sínu eða útliti þó þær séu grannar. Kannski finnst þeim þær vera of grannar, með of stórt nef, litlar varir, stuttar fætur, bólur, ljótt hár...... Svona mætti lengi telja. Útlitskröfurnar oft komnar langt út fyrir það sem flestum finnst eðlilegt og því er vert að hugsa kannski aðeins um það hversu heilbrigðar fyrirmyndir okkar eru og hvernig myndum af þeim er breytt í fjölmiðlum.
Eins og þú hefur eflaust heyrt margoft þá skiptir mestu máli að vera heilbrigður og líða vel – líkamlega og andlega. Hollur matur, hæfileg hreyfing, nægur svefn og góð tengsl við fjölskyldu og vini eru allt þættir sem þarf að huga að.
Við erum öll mismunandi og því er best að sætta sig við það. Vertu jákvæð og hugsaðu um alla kostina sem þú hefur. Þú ert einstök eins og þú ert.
Ef þú vilt ræða við einhvern um þessa hluti vill umboðsmaður fyrst benda þér á að tala við einhvern í fjölskyldunni, t.d. foreldra þína. Þú getur líka fengið viðtal hjá skólahjúkrunarfræðingnum, en hann/hún aðstoðar krakka með alls kyns mál sem varða heilsu og líðan.
Í lokin má benda á þessa síðu á vefnum 6h.is. sem er fullur af fróðleik um heilbrigði. Þarna er hægt að senda fyrirspurn í trúnaði til hjúkrunarfræðings.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna