Mega kennarar ljósrita nemaverkefni án vitundar?
Strákur
13
Hæhæ. Mega kennarar í skólanum ljósrita verkefni eftir mig án minnar vitundar eða samþykkis? Ef svo er má hann þá líka sýna örðum starfsmönnum skólans verkefnið sem hann er búinn að ljósrita (kennurum og skólastjórnendum)? Kveðja
Komdu sæll
Í fyrirspurn þinni til umboðsmanns barna spyrð þú hvort kennari megi ljósrita verkefni þitt án þinnar vitundar eða samþykkis og hvort hann megi sýna öðrum kennurum og skólastjórnendum verkefnið.
Svarið við fyrirspurninni ræðst í raun af því í hvaða tilgangi verkefnið var ljósritað og sýnt öðru starfsfólki. Kennarar eiga að sýna nemendum trúnað og virðingu og telur umboðsmaður barna því ekki rétt að kennari ljósriti verkefni og sýni öðru starfsfólki, nema það séu góðar ástæður fyrir því. Góð ástæða gæti t.d. verið ef eitthvað er óljóst í verkefninu og kennarinn þarf að ráðfæra sig við samstarfsfólk sitt. Annað dæmi er ef eitthvað kemur fram í verkefninu sem kennarinn telur mikilvægt að skólastjórnendur viti, t.d. um líðan nemanda eða aðstæður á heimili hans (slíkt gæti skólinn líka þurft að tilkynna til barnaverndar).
Það geta verið ýmsar aðrar ástæður fyrir því að kennari vilji sýna öðrum verkefni nemanda, t.d. ef verkefnið er einstaklega gott. Í slíkum tilvikum væri þó best að tala fyrst við viðkomandi nemanda og fá leyfi.
Ef þú vilt ræða málið nánar eða ert með fleiri spurningar skaltu endilega hafa samband aftur. Þú getur svarað þessum pósti eða hringt í síma 800-5999 (gjaldfrjálst).
Kær kveðja frá umboðsmanni barna