Mega foreldrar skoða sms í síma barns síns án leyfis?
strákur
16
Mega foreldrar skoða sms í síma barns síns án leyfis?
Komdu sæll.
Það eru ýmis lög sem vernda friðhelgi einkalífs barna. En þó svo að börn eigi sjálfstæðan rétt til friðhelgi einkalífs og njóti verndar m.a. skv. stjórnarskránni og Barnasáttmálanum þá er sá réttur takmarkaður af nokkru leyti vegna þess að forsjá barna er í höndum foreldra eða annarra forráðamanna. Í þeirri forsjá felst ms.a. réttur foreldra og skylda til að vernda barn sitt og ráða persónulegum högum þess.
Foreldrar eiga að taka tillit til friðhelgi einkalífs barns síns og á sú friðhelgi að fá meira vægi eftir því sem barnið eldist og þroskast. Í friðhelgi einkalífs felst m.a. að það má almennt ekki skoða sms, tölvupóst eða önnur einkaskilaboð barna án samþykkis þeirra.
Réttur barna til friðhelgi einkalífs er samt alltaf háður ábyrgð og skyldum foreldra gagnvart börnunum, þ.á.m. þeirri skyldu að vernda þau gegn óæskilegum áhrifum og /eða gerðum. Ef foreldra grunar að barn þeirra sé í vanda, ber þeim skylda til að gera allt sem þeir geta til að vernda barnið og koma því til aðstoðar. Áhyggjur foreldra af velferð barns eða hegðun þess geta því stundum réttlætt það að foreldrar skoði sms í síma barns síns. Foreldrar verða samt að passa að gera þetta bara í undantekningartilfellum og alltaf þannig að barnið viti af því.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna