Mega foreldrar mínir slá mig utanundir?
stelpa
14
Er það sjálfsagt að foreldrar mínir slái mig utanundir "kinnhest" ef ég geri eitthvað af mér?
Komdu sæl
Þú spyrð hvort það sé sjálfsagt að foreldrar þínir slái þig utanundir ef þú gerir eitthvað af þér.
Svarið er NEI. Það er ekki sjálfsagt og það telst heimilisofbeldi ef foreldrar beita börnin sín hvers konar ofbeldi, þ. á m. með því að slá þau utanundir. Það er líka heimilisofbeldi að beita börnin sín andlegu ofbeldi. Ekkert barn á að þurfa að líða það að vera beitt ofbeldi, hvorki á heimili sínu né annars staðar. Það er bannað með lögum að beita börn ofbeldi, hvort sem um er að ræða foreldra, aðra fjölskyldumeðlimi eða einhvern ókunnugan.
Um þessi mál er fjallað í ýmsum lögum, m.a. í barnalögum, þar sem segir að foreldrum beri að annast barn sitt og sýna því umhyggju og virðingu og gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum svo sem best hentar hag barns og þörfum. Forsjá barns felur í sér skyldu foreldra til að vernda barn sitt gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi og annarri vanvirðandi háttsemi.
Samkvæmt barnalögunum hvílir því skylda á foreldrum að vernda börnin sín fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi, en í þessu felst ekki aðeins að þau eigi að vernda þau fyrir ofbeldi frá öðrum, heldur mega þau sjálf ekki beita þau ofbeldi. Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að börn eiga ekki að þurfa að þola það að vera beitt ofbeldi, allra síst af foreldrum sínum.
Ef þú hefur verið beitt ofbeldi og vilt leita þér aðstoðar ættir þú að byrja á því að leita til einhvers fullorðins sem þú getur treyst og ræða málin við hann, t.d. einhvers innan fjölskyldunnar. Þú getur líka leitað til m.a. umsjónarkennarans þíns eða námsráðgjafans í skólanum og beðið þá um að aðstoða þig. Barnaverndarnefnd eða lögreglan getur líka veitt aðstoð ef þú vilt láta vita af ofbeldi. Síminn er 112.
Þér er líka velkomið að hringja hingað til okkar hér á skrifstofu umboðsmanns barna til að ræða málin, gjaldfrjálsa númerið okkar er 800 5999.
Með bestu kveðju frá umboðsmanni barna og von um að þér gangi vel.