Mega foreldrar mínir banna mér að hitta kærastann minn?
stelpa
17
Mega foreldrar mínir banna mér að hitta kærastann minn?
Komdu sæl
Börn njóta friðhelgi einkalífs og eiga sjálfstæðan rétt til að hafa áhrif á eigið líf m.a. skv. barnalögum og Barnasáttmálanum en sá réttur er þó takmarkaður af nokkru leyti vegna þess að forsjá barna er í höndum foreldra. Í forsjá felst m.a. réttur foreldra og skylda til að vernda barn sitt og ráða persónulegum högum þess.
Þó foreldrar þínir ráði högum þínum ber þeim að virða skoðanir þínar og taka ákvarðanir sem eru þér fyrir bestu. Með auknum þroska skal tekið aukið mið af óskum unglinga, sérstaklega þegar fjallað er um mikilvæga og persónulega þætti í lífi unglinga eins og hvaða fólk þeir umgangast.
Foreldrar þínir þurfa því að taka tillit til þess að þú viljir hitta kærasta þinn svo lengi sem það er ekki andstætt hagsmunum þínum. En ef foreldrar þínir hafa ástæðu til að ætla að samvera með kærastanum hafi ekki góð áhrif á þig og velferð þína geta þau strangt til tekið bannað þér að hitta hann.
Umboðsmaður barna mælir með að þú og foreldrar þínir ræði málin á rólegum nótum þar sem bæði sjónarhorn koma fram. Þar gætuð þið e.t.v. komist að samkomulagi sem þið sættið ykkur öll við. Foreldrum ber skylda til að hafa velferð barna sinna að leiðarljósi og vernda þau og koma til aðstoðar þegar þörf er á.
Gangi þér vel.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna