Mátti ekki ljúka heimavinnu í frímínútum
stelpa
15
Á ekki barn í skóla rétt á því að klára heimavinnu sína í 5 mínútna frímínútum áður en tíminn byrjar og sleppa við að fá punkt fyrir að vinna ekki heimavinnu.
Kennarinn minn gaf mér óunna heima vinnu fyrir að hafa ekki klárað heimavinnu mína áður en ég kom í skólann og ég er allveg brjáluð yfir þessu. Mér finnst þetta vera mannréttindabrot. Og ég ætla að kvarta við yfirvöld yfir því að ég fái ekki rétt minn í skólanum uppfylltan og ég er ekkert lítið barn ég er í 10 bekk og það gera allir mistök að gleyma því sem þeir eiga að gera og það á ekki að þurfa að refsa 15 ára krökkum né neinum öðrum fyrir það. Hvernig getur hún gefið manni óunna heimavinnu áður en tíminn byrjar?? Og hún gaf mér ekki einu sinni tækifæri til þess vegna þess að þegar hún sá mig vinna þær þrjár spurningar sem átti eftir af 20 spurningum þá stoppaði hún mig og var svo reið og talaði svo mikið þannig að ég gat ekki klárað en ef hún hefði gefið mér tækifæri til þess þá hefði ég getað klárað þetta allt!!
Ég er 15 ára stelpa og vill að það sé komið við mig á réttan hátt og að ég fái alla vegana að njóta réttar míns og það sérstaklega í skólanum.
Sæl
Það virðist vera einhver togstreita milli þín og kennarans. Það er ekki gott að verða brjáluð heldur betra að jafna sig á reiðinni og ræða síðan málin í rólegheitunum. Best væri að ræða fyrst við viðkomandi kennara og segja frá því sem þér finnst óréttlátt, til dæmis þetta að þú gast ekki klárað. Ef það gengur ekki þá að ræða við umjónakennara þinn sem á að aðstoða þig í málum sem þessum. Ef þetta gengur ekki má tala við aðstoðaskólastjórann, skólastjórann eða námsráðgjafann. Því miður koma oft upp svona mál milli kennara og nemenda en oftast leysast málin farsællega þegar allir hafa jafnað sig. Einnig má benda þér á að fá aðstoð foreldra þinna við að leysa málið.
Mundu bara að það getur skipt miklu máli hvernig þú talar um þetta mál. Það lofar t.d. ekki góðu að skella fram fullyrðingum eins og „Þú ert alltaf ósanngjörn við mig og þú leyfir mér aldrei að gera hitt eða þetta". Það virkar yfirleitt betur að viðurkenna mistök og ræða málin eins og þau horfa við þér (í 1. persónu), t.d. „mig langaði bara að standa mig og klára heimavinnuna vegna þess að ég hafði gleymt að vinna heima það litla sem vantaði uppá. Ég hélt að það væri í lagi að nota þann frítíma sem ég á í skólanum til að ljúka við verkefnið." Betra er að leita að lausnum heldur en sökudólgum. Svo þarf örugglega ekki að taka fram að virðing og kurteisi eru lykillinn að góðum samskiptum.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna