Mamma öskrar mikið á mig
Stelpa
10
Mamma öskrar mikið á mig hvernig stoppa eg það
Takk fyrir að hafa samband við umboðsmann barna og það er frábært að þú sért að leita að aðstoð.
Það er að sjálfsögðu ekki í lagi að foreldrar öskra á börnin sín. Heimili okkar er staður þar sem okkur á að líða vel, þar sem við fáum að vera við sjálf og þar sem hlustað er á okkur þegar við segjum frá því hvernig okkur líður.
Öll börn eiga rétt á vernd og umönnun og allir sem eru að ala upp börn, foreldrar eða aðrir, eiga að sýna þeim virðingu og umhyggju.
Það væri mjög gott fyrir þig að leita til einhvers fullorðins sem þú treystir og segja frá því hvernig þú hefur það heima hjá þér. Kannski ertu með góðan kennara sem þú treystir, eða er kannski námsráðgjafi í skólanum eða annar starfsmaður sem þér finnst þú geta talað við. Eða kannski góð amma, afi, frændi, frænka, foreldri vinar eða vinkonu, nágranni eða einhver annar sem þú treystir. Ef það er einhver sem þú treystir þá gæti sá einstaklingur kannski aðstoðað þig við að ræða við mömmu þína þannig að þú getir sagt henni frá því hvernig þér líður og hvaða áhrif það hefur á þig þegar hún öskrar á þig.
Þú hefur vonandi heyrt um Barnasáttmálann, en það er samningur sem Ísland hefur skrifað undir og það þýðir að hér á landi eiga börn réttindi sem allir þurfa að virða. Hér á heimasíðunni okkar getur þú lesið og skoðað myndir um Barnasáttmálann og réttindi þín.
Ef við getum eitthvað aðstoðað þig meira þá máttu endilega senda okkur tölvupóst á ub@barn.is, eða senda okkur önnur skilaboð í gegnum heimasíðuna okkar barn.is. Þú getur líka sent okkur skilaboð á facebook eða hringt í gjaldfrjálsa númerið okkar 800-5999 milli 9 og 15 alla virka daga.
Gangi þér sem allra best og við sendum þér góðar kveðjur frá umboðsmanni barna.