Logo Umboðsmanns barna
English Danish Russian Thai Polish

Barnasáttmálinn

Barnasáttmálinn í myndum

Veggspjald fyrir yngstu börnin

Í tilefni að 25 ára afmæli Barnasáttmálans 20. nóvember 2014 hefur umboðsmaður barna gefið út veggspjald sem ætlað er börnum á leikskólaaldri og börnum í yngri bekkjum grunnskóla. Á veggspjaldinu eru myndir sem eiga að útskýra innihald Barnasáttmálans. 

Barnasattmalinn I Myndum Minnkad
Með því að smella á myndina  opnast veggspjaldið sem JPG skjal.

Hér er veggspjaldið lóðrétt.

Barnasáttmálinn í myndum

Hér að neðan er útskýrt til hvaða greina Barnasáttmálans myndir á veggspjaldinu Barnasáttmálinn í myndum vísa. Á veggspjaldinu eru sett fram í myndum þau atriði sem helst eiga erindi til ungra barna. Greinar Barnasáttmálans tengjast allar hver annarri og því getur verið eðlilegt að fleiri en ein grein sáttmálans eigi við hverja mynd. Textinn er ætlaður fullorðnum en gæti gefið hugmyndir að umræðuefni í tengslum við myndirnar. Greinar Barnasáttmálans sem vitnað er í eru hér settar fram í styttri útgáfu. Hægt er að nálgast Barnasáttmálann í heild sinni hér.

Þórey Mjallvít H. Ómarsdóttir teiknaði myndirnar á veggspjaldinu en hún hefur líka séð um myndskreytingar á vef umboðsmanns barna. Athugið að textinn er enn í vinnslu og kann því að breytast lítillega. Allar ábendingar um hann  eru vel þegnar. 

Hér eru neðangreindar upplýsingar í PDF skjali. Þeir sem vilja eintök af veggspjaldinu geta nálgast það á skrifstofu umboðsmanns barna. Veggspjaldið er 33 cm X 96 cm.

 Mynd 1. Jöfn en ekki eins

Mynd 1 Joefn En Ekki EinsÖll börn eru jafn mikilvæg og eiga að njóta sömu réttinda. Á myndinni má sjá alls konar verur sem búa saman á Íslandi. Þó að þær séu af ólíkum uppruna og séu mismunandi í laginu og á litinn eiga þær öll sömu réttindin. Það á að koma jafn vel fram við öll börn. Sumir þurfa meiri aðstoð en aðrir til að geta notið réttinda sinna til jafns við aðra.

 • Hvernig væri lífið ef allir væru eins?
 • Er það jafnræði að allir fái alltaf jafnmikið af öllu?
 • Af hverju þurfa sumir meiri aðstoð en aðrir?

Myndin byggir aðallega á:

2. grein    Jafnræði — bann við mismunun
Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.

Mynd 2. Lifa og þroskast

2 Lifa Og ThroskastBlómálfurinn þarf sól, vatn og einhvern sem passar hann til að lifa, þroskast og líða vel. Börn þurfa líka góðar aðstæður og margir þurfa að vinna saman að velferð þeirra. Til dæmis þurfa þau umhyggju, næringu, vernd og margt annað til að eiga sem besta möguleika á að þroskast og lifa góðu lífi. Froskurinn getur hjálpað okkur að tengja myndina við orðið „þroski“ (sbr. að fara í froskamat en ekki þroskamat).

 • Hvað þarft þú til að stækka og þroskast?
 • Hvað þarft þú til að líða vel og lifa góðu lífi?
 • Hvað gerist ef barn fær ekki það sem það þarf?

Myndin byggir aðallega á:

6. grein    Réttur til lífs og þroska
Sérhvert barn á meðfæddan rétt til lífs og skulu aðildarríkin tryggja að það megi lifa og þroskast.

27. grein    Lífsskilyrði
Börn eiga rétt á að búa við aðstæður sem stuðla að líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska og bera foreldrar höfuðábyrgð á lífsskilyrðum og framfærslu barna sinna. Aðildarríki skulu tryggja foreldrum fjárhagsaðstoð og stuðningsúrræði ef þörf krefur. Jafnframt skulu aðildarríkin tryggja hverju barni innheimtu framfærslueyris frá þeim sem ber fjárhagslega ábyrgð á barninu, hvort sem viðkomandi býr innanlands eða í útlöndum.

Mynd 3. Hagsmunir barna í forgang

3 Hagsmunir Barna I ForgangMyndin sýnir margar hendur halda á einu barni. Það þurfa margir að vinna saman að því að réttindi barna séu virt. Þegar eitthvað er ákveðið sem snertir börn með einhverjum hætti á alltaf að huga að því hvernig ákvörðunin hefur áhrif á börn. Þetta á við í persónulegum málum, t.d. þegar foreldrar taka ákvörðun fyrir barn og þegar skólar eða aðrir opinberir aðila taka ákvörðun sem varðar barn. Þetta á einnig við  þegar eitthvað er ákveðið sem hefur áhrif á stærri hópa barna eða öll börn í samfélaginu. Þegar hagsmunir fullorðinna og barna rekast á eiga börn að njóta forgangs.

 • Hverjir þurfa að vinna saman til að bjóða börnum upp á sem bestar aðstæður?
 • Af hverju skipta hagsmunir barna meira máli en hagsmunir fullorðinnar?
 • Getur þú nefnt dæmi þar sem það sem er best fyrir fullorðna er ekki það sama og það sem er best fyrir börn?
 • Getur þú nefnt dæmi um mál þar sem fullorðnir og börn eru ekki alveg sammála?

Myndin byggir aðallega á:

3. grein    Það sem barninu er fyrir bestu
Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki  eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.

Mynd 4. Hafa áhrif

4 Hafa AhrifFullorðna fólkið þarf að „setja sig í stellingar“ til að hlusta og heyra það sem börnin hafa að segja.  Þeir fullorðnu eiga alltaf að athuga hvað börnum finnst þegar eitthvað er ákveðið sem skiptir börnin máli. Þegar fullorðnir eiga samráð við börn er mikilvægt að börn fái tækifæri til að tjá sig við aðstæður sem hentar þeim. Þetta á við þegar foreldrar eða kennarar ákveða eitthvað fyrir börnin en líka þegar þeir sem ráða í landinu, borginni eða bænum taka ákvarðanir. Það er gott að börnin fái að æfa sig í að segja hvað þeim finnst, hlusta á aðra og finna lausnir. Þetta skiptir miklu máli því við búum í lýðræði og við viljum að það virki vel, líka fyrir börn.

 • Af hverju beygir fullorðna fólkið á myndinni sig niður?
 • Færð þú tækifæri til að segja hvað þér finnst um það sem skiptir þig máli?
 • Hverju myndir þú vilja breyta ef þú fengir að ráða?
 • Við hverja talar þú þegar þú vilt segja hvað þér finnst?

Myndin byggir aðallega á:

12. grein    Réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif
Börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska. Börnum skal veitt tækifæri til að tjá sig um eigin málefni við málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi.

Mynd 5. Nafn og ríkisfang

5 Nafn Og RikisfangVið erum öll mismunandi og með alls konar einkenni sem aðgreina okkur frá öðrum.  Allir heita eitthvað og ekkert nafn er betra eða verra en annað.

Það eiga allir líka rétt á ríkisfangi en það segir í hvaða landi maður er borgari. Á Íslandi búa börn sem eru frá ýmsum löndum. Þau eiga rétt á að halda því sem auðkennir þau og fjölskyldu þeirra.

 • Hvað heitir barnið á myndinni og frá hvaða landi er það?
 • Hvað heitir þú og frá hvaða landi eða löndum ert þú?

Myndin byggir aðallega á:

7. grein    Réttur til nafns og ríkisfangs
Börn skal skrá við fæðingu. Þá eiga þau einnig rétt á nafni og ríkisfangi og að þekkja og njóta umönnunar foreldra sinna eftir því sem unnt er.

8. grein    Réttur til að halda persónulegum auðkennum
Aðildarríkjum er skylt að virða rétt barns til að halda persónulegum auðkennum sínum svo sem ríkisfangi, nafni og fjölskyldutengslum.

Mynd 6. Fjölskylda og umönnun

6 Fjoelskylda Og UmoennunFjölskyldur eru alls konar. Öll börn eiga rétt á að þekkja og vera með báðum foreldrum sínum ef það er hægt, þó að þeir búi ekki saman. Foreldrar bera saman ábyrgð á börnum og þeir eiga að vera góðir við börnin sín. Foreldrar eiga líka rétt á stuðningi, t.d. þegar þeir þurfa að vinna, eru veikir eða eiga erfitt með að sinna börnum sínum. Þess vegna þurfa að vera til leikskólar, barnavernd og fleira til að það sé vel hugsað um börnin.

 • Hverjir eru að leiða barnið á myndinni?
 • Hverjir skipta mestu máli til að börnin þroskist og líði vel?
 • Geta öll börn verið með foreldrum sínum?

Myndin byggir aðallega á:

5. grein    Ábyrgð foreldra
Aðildarríki eiga að virða ábyrgð, réttindi og skyldur foreldra til að veita börnum sínum leiðsögn og stuðning í samræmi við þroska þeirra.

9. grein    Aðskilnaður frá foreldrum
Aðildarríki skulu tryggja að börn verði ekki skilin frá foreldrum sínum nema  ef velferð barnanna verður ekki tryggð með öðru móti. Barn sem ekki elst upp hjá báðum foreldrum á rétt á að umgangast þá báða reglulega nema það sé andstætt hagsmunum þess.

10. grein    Endurfundir  fjölskyldu 
Barn sem á foreldra búsetta í mismunandi ríkjum á rétt á að halda persónulegum tengslum við þá báða ef mögulegt er. Aðildarríkjum ber að stuðla að sameiningu eða endurfundum sundraðra fjölskyldna með því að auðvelda ferðir milli ríkja.

11. grein    Vernd gegn brottnámi
Aðildarríkin skulu tryggja það að börn séu ekki flutt ólöglega úr landi og haldið erlendis og skulu gera um það samninga við önnur ríki.

18. grein    Uppeldi og þroski
Foreldrar bera sameiginlega ábyrgð á uppeldi barna sinna og skulu taka mið af því sem börnunum er fyrir bestu. Stjórnvöldum ber að veita foreldrum viðeigandi aðstoð við að rækja uppeldisskyldur sínar og sjá til þess að byggðar séu upp stofnanir og þjónusta veitt til umönnunar barna.

21. grein    Ættleiðing
Þegar börn eru ættleidd innanlands eða á milli landa skal það gert með leyfi stjórnvalda. Alltaf skulu hagsmunir barnanna hafðir að leiðarljósi. 

37. grein    Frelsissvipting, ill meðferð og refsingar
Börn sem svipt eru frelsi sínu eiga rétt á mannúðlegri meðferð [...] Börn í fangelsum eða sambærilegum stofnunum eiga rétt á að halda sambandi við fjölskyldur sínar.

Mynd 7. Heilsuvernd

7 HeilsuverndEf börn verða veik, slasa sig eða líður illa eiga þau að geta farið á heilsugæslustöðina eða spítala til að fá hjálp. Í grunnskólum er líka hjúkrunarfræðingur sem getur hjálpað börnum sem eru veik, meiða sig eða líður illa eða  í skólanum. Á myndinni getur sá fullorðni í hvíta sloppnum staðið fyrir einhvern sem starfar í heilbrigðiskerfinu.

 • Hvernig geta læknar, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar  og aðrir hjálpað börnum?
 • Geta öll börn í heiminum fengið að fara til læknis?
 • Hvað þarf að passa til að börn séu örugg og slasist ekki t.d. í umferðinni, á skólalóðinni eða heima hjá sér?

Myndin byggir aðallega á:

24. grein    Heilsuvernd barna
Börn eiga rétt á njóta besta mögulegs heilsufars sem hægt er að tryggja, s.s. með læknisaðstoð og heilbrigðisþjónustu. Aðildarríki skulu gera ráðstafanir til að draga úr barnadauða, berjast gegn sjúkdómum og vannæringu, stuðla að fræðslu um heilbrigt líferni og reyna að ryðja úr vegi hefðum sem eru skaðlegar heilsu barna. Barnshafandi konur og mæður ungbarna eiga rétt á heilsugæslu.

Mynd 8. Vernd og öryggi

8 Vernd Og OeryggiÞað má ekki meiða börn og þau eiga að geta treyst því að fullorðna fólkið passi upp á þau. Börn eiga rétt á vernd gegn hvers konar ofbeldi, misnotkun og vanrækslu. Stóra regnhlífin á myndinni getur staðið fyrir alla þá sem vernda börn, s.s. foreldra, starfsfólk í skólum, heilsugæslu og barnavernd eða einhverja aðra fullorðna sem gæta þess að ýmislegt neikvætt í samfélaginu dynji ekki á börnum og skaði þau.

 • Hvað táknar regnhlífin á myndinni?
 • Hverjir geta hjálpað börnum?
 • Hvað getur skaðað börn mest?
 • Af hverju skiptir svo miklu máli að vera öruggur?

Myndin byggir aðallega á:

19. grein     Vernd gegn ofbeldi og vanrækslu
Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi, misnotkun, skeytingarleysi og vanrækslu, innan eða utan heimilis. Stjórnvöld skulu veita börnum sem sætt hafa illri meðferð og fjölskyldum þeirra viðeigandi stuðning.

33. grein    Ávana- og fíkniefni
Börn eiga rétt á vernd gegn ólöglegri notkun ávana- og fíkniefna og gegn því að þau séu notuð við ólöglega framleiðslu slíkra efna og verslun með þau. 

34. grein    Kynferðislegt ofbeldi
Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns kynferðislegu ofbeldi, s.s þátttöku í hvers kyns kynferðislegri háttsemi, vændi eða klámi.

35. grein    Brottnám, sala og verslun með börn
Aðildarríki skulu gera allt sem við á til að koma í veg fyrir brottnám barna og verslun með börn í hvaða tilgangi sem er.

36. grein    Önnur misnotkun
Börn eiga rétt á vernd gegn hvers kyns annarri misnotkun sem á einhvern hátt getur stefnt velferð þeirra í hættu.

37. grein    Frelsissvipting, ill meðferð og refsingar
Börn sem svipt eru frelsi sínu eiga rétt á mannúðlegri meðferð, lögfræðilegri og/eða annarri aðstoð til að fá mál sitt borið undir dómstól eða stjórnvald og rétt á að fá skjótan úrskurð í málinu. Ekki má beita börn pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu. Ekki skal dæma börn til dauða eða í lífstíðarfangelsi án möguleika á lausn. Börn í fangelsum eða sambærilegum stofnunum eiga rétt á að halda sambandi við fjölskyldur sínar.

Mynd 9. Menntun við hæfi

9 Menntun Vid HaefiMyndin sýnir alls konar hluti sem tengjast bóknámi, verknámi og listnámi. Það er ekki nóg að börn læri að lesa og skrifa heldur er fullt af öðrum hlutum sem er mikilvægt að þau læri til að þroskast og geta tekið þátt í samfélaginu. Á sama tíma erum við misjöfn og börn eiga að fá að rækta hæfileika sína og áhugamál eins og hægt er. Eftir því sem börn eldast eiga þau að fá að hafa meira um það að segja hvað þau gera. Börn sem eiga erfitt með að læra eða að fara eftir reglum eiga að fá aðstoð við það í skólanum. Foreldrar og starfsfólk skóla eiga saman að sjá til þess að börn fái þá hjálp sem þau þurfa.

 • Hvaða hlutir eru í kassanum?
 • Af hverju er mikilvægt að vera í skóla?
 • Hvað finnst þér mest spennandi að læra?

Myndin byggir aðallega á:

28. grein    Menntun
Börn eiga rétt á grunnmenntun án endurgjalds og skulu eiga kost á framhaldsmenntun og upplýsingum og ráðgjöf um nám og störf.  Aðildarríkjum ber að koma á skólaskyldu, gera ráðstafanir sem stuðla að reglulegri skólasókn og reyna að draga úr brottfalli nemenda. Agi í skólum skal samrýmast mannlegri reisn barnsins og vera í samræmi við sáttmála þennan.

29. grein    Markmið menntunar
Menntun á gefa börnum tækifæri til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og undirbúa þau til að lifa ábyrgu lífi í frjálsu þjóðfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, jafnréttis kynjanna og vináttu allra þjóða og þjóðernishópa. Stuðla ber að virðingu fyrir mannréttindum, mismunandi menningarlegri arfleifð, tungu og gildismati, öðru fólki og náttúrulegu umhverfi mannsins. 

Mynd 10. Hvíld

10 HvildBörn eiga rétt á hvíld. Þó að við höfum stundum mikið að gera er mikilvægt að hafa í huga að hvíld er nauðsynleg til að börnum líði vel og nái eins miklum þroska og hægt er.

Börn þurfa meiri svefn en fullorðnir. Yngri börn þurfa að leggja sig á daginn en fyrir önnur börn er nóg að vera í ró og næði í smá tíma til að safna orku.

 • Af hverju er mikilvægt að hvíla sig?
 • Hvað gerist ef maður er þreyttur og getur ekki hvílt sig?

Myndin byggir aðallega á:

31. grein    Hvíld og tómstundir
Börn eiga rétt á hvíld, tómstundum, leikjum og skemmtunum sem hæfa aldri þeirra og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.

Mynd 11. Leikur, frístundir og menning

11 Leikur Fristundir Og MenningBörn eiga rétt á því að fá að leika sér. Leikurinn er börnum nauðsynlegur til þess að þau þroskist og dafni, kynnist lífinu og tilverunni og læri að verða þátttakendur í mannlegu samfélagi. Þátttaka í skipulögðu frístundastarfi skiptir miklu máli þegar kemur að forvörnum en frjáls leikur og sköpun eru alveg jafn mikilvægir þættir fyrir hugrænan og félagslegan þroska barna.

 • Af hverju er mikilvægt að leika sér?
 • Hvað gerist ef maður fær ekki að leika sér?
 • Er munur á barnamenningu og fullorðinsmenningu?

Myndin byggir aðallega á:

31. grein    Hvíld og tómstundir
Börn eiga rétt á hvíld, tómstundum, leikjum og skemmtunum sem hæfa aldri þeirra og til frjálsrar þátttöku í menningarlífi og listum.

Mynd 12. Eigin menning og tungumál

12 Eigin Menning Og TungumalÁ Íslandi búa börn sem eiga sér annað móðurmál, menningu eða trú en meirihlutinn í landinu. Þau eiga að fá að njóta menningar sinnar með þeim minnihlutahópi sem þau tilheyra. 

Þau eiga líka rétt á að iðka trú sína og nota sitt eigið tungumál. Myndin á að tákna mismunandi menningarhópa sem geta búið saman í sátt.

 • Hvaða tungumál þekkir þú?
 • Hvaða trúarhátíðir þekkir þú ?
 • Hvernig myndir þú vilja lifa ef þú myndir búa í öðru landi?

Myndin byggir aðallega á:

30. grein    Minnihlutahópar
Börnum sem tilheyra minnihlutahópum skal ekki bannað að njóta eigin menningar, iðka eigin trú eða nota eigið tungumál í samfélagi með öðrum í hópnum.

2. grein    Jafnræði — bann við mismunun
Öll börn skulu njóta réttinda Barnasáttmálans án tillits til kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungu, trúar, stjórnmálaskoðana, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna þeirra eða stöðu eða athafna foreldra þeirra.

8. grein. Réttur til að halda persónulegum auðkennum 
Aðildarríkjum er skylt að virða rétt barns til að halda persónulegum auðkennum sínum svo sem ríkisfangi, nafni og fjölskyldutengslum.

Mynd 13. Hreint vatn og hollur matur

13 Hollur Matur Og Hreint VatnÖll börn eiga rétt á því að fá hollan mat að borða. Þau börn sem þurfa örðuvísi mat en aðrir vegna þess að þau eru t.d. með ofnæmi, eiga rétt á að fá þann mat sem hentar þeim.

Við erum svo heppin að á Íslandi geta allir fengið hreint vatn sem er nauðsynlegt öllum börnum (og álfum).

 • Af hverju er mikilvægt að borða hollan mat?
 • Geta öll börn í heiminum fengið hreint vatn og hollan mat?
 • Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Myndin byggir aðallega á:

27. grein    Lífsskilyrði
Börn eiga rétt á að búa við aðstæður sem stuðla að líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska og bera foreldrar höfuðábyrgð á lífsskilyrðum og framfærslu barna sinna. Aðildarríki skulu tryggja foreldrum fjárhagsaðstoð og stuðningsúrræði ef þörf krefur. Jafnframt skulu aðildarríkin tryggja hverju barni innheimtu framfærslueyris frá þeim sem ber fjárhagslega ábyrgð á barninu, hvort sem viðkomandi býr innanlands eða í útlöndum.

Mynd 14. Heimili

14 HeimiliHeimili eru alls konar, alveg eins og fjölskyldur. Á sumum heimilum búa margir en á öðrum búa fáir.

Heimili er ekki bara húsið eða íbúðin sem maður býr í heldur þýðir orðið líka staður sem manni á að líða vel á. Sum börn eiga fleiri en eitt heimili.

 • Hvernig eru heimili mismunandi?
 • Hverjir búa saman á heimilum?

Myndin byggir aðallega á:

27. grein    Lífsskilyrði
Börn eiga rétt á að búa við aðstæður sem stuðla að líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska og bera foreldrar höfuðábyrgð á lífsskilyrðum og framfærslu barna sinna. Aðildarríki skulu tryggja foreldrum fjárhagsaðstoð og stuðningsúrræði ef þörf krefur. Jafnframt skulu aðildarríkin tryggja hverju barni innheimtu framfærslueyris frá þeim sem ber fjárhagslega ábyrgð á barninu, hvort sem viðkomandi býr innanlands eða í útlöndum.

Mynd 15. Föt við hæfi

15 Foet Vid HaefiÁ Íslandi er veður mjög breytilegt og því þurfa börn að eiga alls konar föt til að geta klætt sig eftir veðri. Það er þeirra réttur.  Það er alltaf mat hvað er við hæfi hverju sinni en hér er átt við fatnað sem er nauðsynlegur til að börnum líði vel og þau haldi heilsu.

 • Hvernig föt eru nauðsynleg á Íslandi?
 • Þurfa börn í öðrum löndum alveg eins föt?

Myndin byggir aðallega á:

27. grein    Lífsskilyrði
Börn eiga rétt á að búa við aðstæður sem stuðla að líkamlegum, andlegum og félagslegum þroska og bera foreldrar höfuðábyrgð á lífsskilyrðum og framfærslu barna sinna. Aðildarríki skulu tryggja foreldrum fjárhagsaðstoð og stuðningsúrræði ef þörf krefur. Jafnframt skulu aðildarríkin tryggja hverju barni innheimtu framfærslueyris frá þeim sem ber fjárhagslega ábyrgð á barninu, hvort sem viðkomandi býr innanlands eða í útlöndum.

Mynd 16. Skoðanir og trú

16 Skodanir Og TruMyndin á að sýna að þó að við aðhyllumst mismunandi trúarbrögð eða höfum ólíkar skoðanir getum við samt verið vinir og liðið vel saman. Börn ráða því sjálf hverju þau trúa og hvað þeim finnst um ýmsa hluti. Flest börn eiga sömu trú og foreldrar sínir en eftir því sem börnin eldast fara þau að hafa eigin skoðanir á hlutunum. Þessi mynd tengist mynd nr. 12 sem fjallar m.a. um réttinn til að iðka eigin trú.

 • Af hverju skiptir máli að virða skoðanir annarra?
 • Hvaða trúarbrögð þekkir þú?
 • Skipta trú máli?

Myndin byggir aðallega á:

14. grein    Skoðana- og trúfrelsi
Aðildarríki skulu virða rétt barna til frjálsrar hugsunar, sannfæringar og trúar. Aðildarríkjum ber að virða rétt og skyldur foreldra til að leiðbeina börnum sínum í þeim efnum.

Mynd 17. Aðstoð við hæfi

17 Adstod Vid HaefiÖll börn eru jafn mikilsverð. Börn með andlega eða líkamlega fötlun eiga rétt á góðu lífi sem stuðlar að jákvæðri sjálfsmynd og virkri þátttöku í samfélaginu. Börn sem hafa skerðingu, eru veik eða með aðrar sérþarfir þurfa oft ýmis konar aðstoð til að geta notið réttinda sinna.

 • Af hverju er mikilvægt að veita sumum börnum sérstaka aðstoð?
 • Hvers vegna er stundum erfitt fyrir börn með sérþarfir að njóta sömu réttinda og aðrir?

Myndin byggir aðallega á:

23. grein    Fötluð börn
Andlega eða líkamlega fötluð börn eiga að búa við aðstæður sem tryggja virðingu þeirra og stuðla að sjálfsbjörg þeirra og virkri þátttöku í samfélaginu. Þau skulu njóta sérstakrar umönnunar, eiga aðgang að menntun, þjálfun, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingu, starfsundirbúningi og tómstundaiðju.

Mynd 18. Upplýsingar

18 Upplysingar

Vandaðar upplýsingar er nauðsynlegar til að efla gagnrýna hugsun og þekkingu um samfélög. Börn eiga að geta fengið upplýsingar sem hæfa þeim úr ýmsum áttum, svo sem  úr fjölmiðlum og skólanum. Börn eiga að fá vernd fyrir efni sem skaðar þau eða lætur þeim líða illa.

 • Hvaða upplýsingar eru mikilvægar fyrir börn?
 • Hvaðan færð þú upplýsingar?
 • Hvaða fjölmiðlar eru með sérstakt efni fyrir börn?

Myndin byggir aðallega á:

17. grein    Aðgangur að upplýsingum
Börn skulu hafa aðgang að innlendum og erlendum upplýsingum og öðru efni sem stuðlar að alhliða þroska þeirra og sem þau njóta góðs af félagslega og menningarlega. Aðildarríkjum ber jafnframt skylda til að vernda börn fyrir efni sem skaðað getur velferð þeirra.

Mynd 19. Tjáning

19 TjaningBörn eiga rétt á að tjá sig og koma upplýsingum á framfæri. Þau geta t.d. grátið, brosað, sagt frá einhverju, skrifað, sungið, dansað, málað og teiknað. Listsköpun er ein leið til að tjá sig og segja frá einhverju. Val á fötum, hárgreiðslu og ýmis önnur hegðun getur líka verið einhvers konar tjáning á því sem maður vill koma á framfæri, hvernig manneskja maður er eða vill verða.

 • Hvernig tjá lítil börn sig?
 • Hvernig tjá unglingar sig?
 • Getur tjáning eins barns verið skaðleg fyrir annað barn?

Myndin byggir aðallega á:

13. grein    Tjáningarfrelsi
Börn eiga rétt á að tjá sig nema það brjóti gegn almennu siðgæði, skaði mannorð eða brjóti gegn réttindum annarra. Börn eiga rétt á að leita sér upplýsinga, taka við upplýsingum og koma þeim á framfæri.

Mynd 20. Einkalíf

20 EinkalifBörn eiga að fá að velja sjálf vini sína og hverjum þeim þykir vænt um.  Börn mega eiga leyndarmál og þau ráða sjálf hvort þau segja foreldrum eða einhverjum frá leyndarmálum, t.d. ef þeim líður illa með eitthvað. Börn ráða líkama sínum sjálf og enginn má gera eitthvað við börn sem er slæmt fyrir þau. Foreldrar eiga að passa upp á velferð barna sinna og takmarkar það rétt barna til einkalífs að einhverju leyti. Þegar börn verða eldri og sjálfstæðari skiptir réttur til einkalífs meira máli. Börn eiga rétt á því að vera í friði ef þau vilja það sjálf.

 • Hvað eru góð leyndarmál?
 • Hvað eru vond leyndarmál?
 • Hvenær má segja frá leyndarmálum?
 • Hvar getur þú fengið að vera í friði?

Myndin byggir aðallega á:

16. grein    Friðhelgi fjölskyldu og einkalífs
Börn eiga rétt á vernd gegn gerræðislegum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi sínu, fjölskyldu, heimili, bréfum og gegn árásum á mannorð.

Mynd 21. Félög og fundir

21 Feloeg Og FundirÞað er gaman að hitta félaga sem eiga sömu áhugamál og gera eitthvað skemmtilegt saman eða spjalla.

Þau börn sem vilja, mega stofna félög og halda fundi til að tala um alls konar mál. Fullorðna fólkið má ekki banna það nema það skaði önnur börn eða brjóti gegn lögum.

 • Hvernig félag myndir þú vilja stofna?
 • Hvað þarf að passa þegar maður stofnar félag?

Myndin byggir aðallega á:

15. grein  Félagafrelsi
Börn eiga rétt á að mynda félög og koma saman með friðsömum hætti nema það brjóti gegn réttindum annarra  eða ógni öryggi þjóðarinnar.

Mynd 22. Réttlát málsmeðferð

22 Rettlat MalsmedferdBörn gera mistök eins og allir aðrir. Þegar börn gera eitthvað rangt eins og t.d. að brjóta lög á að koma vel fram við þau og hjálpa þeim að læra af mistökunum og byggja sig upp. Börn þurfa meiri vernd en fullorðnir og það þarf að gæta þess sérstaklega vel að viðbrögð við afbrotum þeirra séu sanngjörn. Öll börn eiga rétt á því að það sé komið vel fram við þau og tekið á brotum þeirra með sanngjörnum hætti. Á myndinni sjást tveir álfar. Þó að annar sé stærri en hinn eiga þeir báðir að fá réttláta málsmeðferð.

 • Hvað eru lög?
 • Hvaða reglur þekkir þú?
 • Hvernig er best að bregðast við ef barn brýtur reglur?

Myndin byggir aðallega á:

40. grein    Afbrot og málsmeðferð
Barn sem er grunað, ásakað eða fundið sekt um afbrot á rétt á réttlátri málsmeðferð sem styrkir vitund þess um manngildi, virðingu fyrir mannréttindum og tekur tillit til aldurs þess. Börn sem brjóta af sér eiga rétt á viðeigandi lögfræðiaðstoð, meðferð og endurhæfingu. Aðildarríkin skulu lögbinda sakhæfisaldur.

37. grein    Frelsissvipting, ill meðferð og refsingar
Börn sem svipt eru frelsi sínu eiga rétt á mannúðlegri meðferð, lögfræðilegri og/eða annarri aðstoð til að fá mál sitt borið undir dómstól eða stjórnvald og rétt á að fá skjótan úrskurð í málinu. Ekki má beita börn pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu. Ekki skal dæma börn til dauða eða í lífstíðarfangelsi án möguleika á lausn. Börn í fangelsum eða sambærilegum stofnunum eiga rétt á að halda sambandi við fjölskyldur sínar.

Mynd 23. Vinnuvernd

23 VinnuverndÞegar börn eldast geta þau farið að hjálpa meira til við heimilisstörf. Margir unglingar á Íslandi vinna í sumarfríum og sumir vinna þó að þeir séu líka í skóla. Það er gott að læra að vinna og fá pening í staðinn en það verður samt að gæta þess að vinnan sé ekki of erfið, hættuleg eða skaðleg af öðrum ástæðum. 

 • Hjálpar þú stundum til heima hjá þér?
 • Hvernig vinna er góð?
 • Af hverju þarf að passa það að börn vinni ekki of mikið?

Myndin byggir aðallega á:

32. grein    Vinnuvernd
Börn eiga rétt á vernd gegn arðráni og vinnu sem spillir eða hindrar nám þeirra eða skaðar heilsu þeirra og þroska. Ríki skulu setja lög um vinnuvernd barna. 

24. Þekkja réttindi sín

24 Thekkja Rettindi SinBörn eiga mörg réttindi og þau eiga rétt á því að þekkja þau. Sumir fullorðnir og mörg börn þekkja ekki nema brot af réttindum barna á Íslandi. 

Við viljum að sem flestir þekki réttindi barna og virði þau. Það er líka mikilvægt að tala um réttindi við börnin, foreldra og alla þá sem vinna með börnum.

 • Af hverju er mikilvægt að börn þekki réttindi sín?
 • Af hverju er mikilvægt að fullorðnir þekki réttindi barna?
 • Hver er munurinn á réttindum og forréttindum?

Myndin byggir aðallega á:

42. – 45. grein    Kynning og eftirlit
Aðildarríki skuldbinda sig til að kynna meginreglur og ákvæði Barnasáttmálans víða með viðeigandi og virkum hætti, jafnt börnum og fullorðnum. Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna fylgist með að aðildarríkin framfylgi Barnasáttmálanum. Aðildarríkin gefa Sameinuðu þjóðunum skýrslur um hvað þau hafa gert til þess að uppfylla sáttmálann. 

4. grein    Ábyrgð aðildarríkja
Aðildarríki eiga að tryggja börnum þau réttindi sem Barnasáttmálinn kveður á um eftir því sem þau framast geta, m.a. með lögum og reglum. Ríkin skulu hjálpast að þannig að öllum börnum verði tryggð þessi réttindi.