Mamma öskrar á systur mína
Mamma öskrar stanslaust á einhverfu systur mína þótt hún geri ekkert rangt, og það er svo erfitt að horfa á hana lenda í því sama og ég lenti í þegar ég var á hennar aldri, hvað get ég gert?
Hæ,
Takk fyrir að hafa samband við umboðsmann barna og það er frábært að þú sért að leita að aðstoð fyrir þig og litlu systur þína.
Það er að sjálfsögðu ekki í lagi að foreldrar öskri á börnin sín. Heimili okkar er staður þar sem okkur á að líða vel, þar sem við fáum að vera við sjálf og þar sem hlustað er á okkur þegar við segjum frá því hvernig okkur líður. Öll börn eiga rétt á vernd og umönnun og allir sem eru að ala upp börn, foreldrar eða aðrir, eiga að sýna þeim virðingu og umhyggju.
Sumir foreldrar þurfa á stuðningi að halda í hlutverki sínu sem foreldrar, en það er hlutverk barnaverndar að veita þá aðstoð og tryggja að börn búi við öryggi og góðar aðstæður. Í þessari stöðu væri því mjög gott ef barnaverndin þar sem þið búið, fengi upplýsingar um að þið þurfið á aðstoð að halda, en það er hægt að hringja beint í 112 og fá þannig samband beint við barnavernd. Ef þú treystir þér ekki til þess að hafa samband sjálf við barnavernd væri mjög gott fyrir þig að leita til einhvers fullorðins sem þú treystir og segja frá því hvernig þú hefur það heima hjá þér og biðja þann aðila um að hafa samband við barnavernd fyrir ykkar hönd. Kannski ertu með góðan kennara sem þú treystir, eða er kannski námsráðgjafi í skólanum, skólahjúkrunarfræðingur eða annar starfsmaður sem þér finnst þú geta talað við. Eða kannski góð amma, afi, frændi, frænka, foreldri vinar eða vinkonu, nágranni eða einhver annar sem þú treystir.
Ef við getum eitthvað aðstoðað þig meira þá máttu endilega hafa samband.
Gangi þér sem allra best og við sendum þér góðar kveðjur frá umboðsmanni barna.