Má skipa fyrir að sitja við hliðina á einhverjum í skólanum?
Strákur
13
Má kennari skipa manni fyrir að sitja hliðina á einhverjum sem manni langar ekki?
Hæ hæ
Börn eiga sjálf að ráða miklu um eigið líf og það á að taka tillit til þess ef þau vilja ekki gera ákveðna hluti í skólastarfi. Nemendur verða samt að fylgja skólareglum og fyrirmælum kennara, til dæmis um verkefni sem á að vinna. Einnig eiga kennarar og nemendur að koma fram við hvort annað af virðingu.
Hins vegar eiga börn að hafa ýmislegt um skólastarfið að segja og eiga rétt á að segja sína skoðun, til dæmis um atriði sem tengjast kennslufyrirkomulagi í kennslustofunni og hvernig valið er í sæti. Ef þú eða þið í beknum eruð ekki ánægð með hvernig valið er í sæti þá ættuð þið að tala um það við umsjónakennarann ykkar og koma jafnvel með tillögur um hvernig hægt væri að velja eða raða í sætin. Það á að taka tillit til skoðana nemenda eins og hægt er og þá væri kannski hægt að breyta fyrirkomulaginu og sjá hvernig það gengur. Það er gott að byrja þar en ef það gengur ekki þá getið þið líka talað við þá sem sitja í stjórn nemendafélagsins og beðið þá um að tala við skólayfirvöld um málið.
Ef kennari er að láta þig sitja með einhverjum sem þér líður illa með að sitja hjá af einhverjum ástæðum eða er að trufla þig þegar þú ert að reyna að læra þá er mikilvægt að tala við kennarann um það og láta hann vita. Kennarinn á að hlusta á þig og kannski væri þá hægt að skoða hvort einhver önnur lausn sé í boði en kennari á líka að passa að það sé góður andi í bekknum og vinnufriður.
Ef þú ert með frekari spurningar um þetta eða eitthvað allt annað mátt þú endilega hafa samband aftur, með því senda skilaboð í gegnum síðuna okkar eða tölvupóst á ub@barn.is.
Svo má líka senda okkur skilaboð á facebook eða hringja í gjaldfrjálsa númerið okkar 8005999.
Kær kveðja frá umboðsmanni barna